05.06.2003
Aðalfundur Skíðafélags Dalvíkur var haldinn í Brekkuseli mánudaginn 26. maí síðastliðinn. Nokkur breyting varð á stjórn félagsins og skipa eftirtaldir stjórnina næsta starfsár.
Formaður. Óskar Óskarsson.
Vara formaður. Bjarni Valdimarsson.
Ritari. Elsa Benjaminsdóttir.
Gjaldkeri. Eva Guðmundsdóttir.
Meðstjórnandi. Valdís Guðbrandsdóttir.
Varastjórn.
Brynjólfur Sveinsson, Þorsteinn Björnsson, Marsibil Sigurðardóttir.
Skýrsla stjórnar starfsárið 2002-2003:
Velkomin á aðalfund Skíðafélags Dalvíkur fyrir árið 2002. Á síðasta aðalfundi voru eftirtaldir kosnir í stjórn félagsins. Óskar Óskarsson formaður, Daði Valdimarsson varaformaður, Marsibil Sigurðardóttir gjaldkeri, Kristrún Sigurðardóttir ritari og Elsa Benjamínsdóttir meðstjórnandi. Varastjórn skipa , Brynjólfur Sveinsson , Þorsteinn Björnsson og Hallgrímur Anton Frímannsson.
Þá störfuðu innan félagsins alpagreinanefnd, svæðisnefnd og foreldrafélag og sáu þessar nefndir um hefðbundna hluti.
Þegar skíðavertíðinni lauk vorum við í viðræðum við Dalvíkurbyggð um áframhaldandi uppbyggingu á skíðasvæðinu. Okkur fannst að á 30 ára afmælisári félagsins væri rétti tíminn til að fara í slíkar viðræður því við teljum að það sé félaginu og Dalvík sem skíðastað mjög mikilvægt að halda áfram að byggja svæðið upp og gera það enn betra. Áframhaldandi uppbygging þarf ekki endilega að þýða stækkun á svæðinu fyrst um sinn þó svo að það komi að því innan fárra ára. Efri lyftan er orðin 25 ára gömul og eins og áður hefur komið fram þarf hún innan fárra ára að fara í mjög kostnaðarsama viðgerð og það verður að taka með í reikningin þegar lyftur verða endurnýjaðar eða nýjar reistar. Ný lyfta sem næði lengra upp og leysti þá gömlu af hólmi er kostur sem hefur verið ræddur innan félagsins og samhliða því afkastaaukning á neðra svæðinu sem mætti ef til vill leysa með því að setja upp barnalyftu norðan við núverandi lyftu. Hugsanlega mætti nota efri lyftuna að einhverju leiti í það. Síðasta uppbyggingar verkefnið á svæðinu var bygging Brekkusels en það var reist árið 1991. Snjótroðarinn var síðan endurnýjaður árið 1995 og þá keyptur tveggja ára gamall troða af Leitner gerð.
Við byrjum á því að senda Dalvíkurbyggð erindi þar sem við fórum fram á viðræður um áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu. Bæjarráð tók erindið fyrir og vísaði því til Íþrótta- æskulýðs- og menningarmálanefndar sem var falið að ljúka málinu með félaginu. Út úr þeim viðræðum varð til átta ára áætlun sem lögð var fyrir bæjarráð sem samþykkti að vinna eftir henni og er hún í grófum dráttum þessi.
2002. Hitaveita í Brekkusel og viðhald á snjótroðaranum.
2002 - 2004. Troðarageymsla, Brekkusel og umhverfi þess.
2004-2005. Troðarakaup.
2005. Viðhald eða endurbygging á elsta húsi á svæðisins.
2004 - 2010. Áframhaldandi uppbygging skíðasvæðisins svo sem nýjar lyftur og viðhald þeirra sem fyrir eru.
Síðasta sumar var síðan hitaveitan lögð í Brekkusel sem er gjörbylting í rekstri hússins og lækkaði kyndingarkostnaður um meira en helming við það. Húsið var áður kynt með rafmagnshitun. Þá var ákveðið að ráðast í kostnaðarsama viðgerð á troðaranum og kostaði hún um 1.250.000 kr. og greiddi Dalvíkurbyggð 1.000.000 kr. af þeim kostnaði en félagið greiddi restina sem var um 250.000 kr. Stefnt er að því að láta tækið duga út vertíðina 2004 en fyrir vertíðina 2005 yrði keypt nýtt tæki. Viðhaldskostnaður þyngist ár frá ári á tæki sem þá verður orðið 12 ára gamalt. Það könnumst við frá viðhaldskostnaði á fyrri troðara okkar.
Eftir að í ljós kom að Vegagerð ríkisins á að sjá um vegi að skíðasvæðum tókum við byggingu vegs út af áætluninni en það er hlutur sem lengi hefur verið vitað að þyrfti að ráðast í. Nú þegar hefur verið ákveðið að nýr eða verulega endurbættur vegur verði lagður á skíðasvæðinu árið 2004 en sumarið 2003 verði notað til að staðsetja vegarstæðið. Nú er bara að vona að þessari áætlun verði fylgt eftir og áfram verði haldið að byggja okkar frábæra skíðasvæði upp til eflingar ferðamannaþjónustu í bænum yfir vetrarmánuðina. Það hefur sýnt sig eftir nýliðin vetur að margir missa spón úr aski sínum þegar ekki er hægt að koma á skíði til Dalvíkur til dæmis um páska og ljóst að snjórinn hefur aðdráttarafl sem við verðum að nýta okkur.
Almennt starf hjá félaginu eftir að skíðavertíðinni lauk vorið 2002 fór rólega af stað eftir annasaman vetur en þá var Skíðamót Íslands haldið hér og á Ólafsfirði. Við ákváðum um vorið að fara í viðhald á snjógirðingum sem fuku um veturinn og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þær girðingar sem fuku færu ekki aftur um koll þar sem af því hlýst töluvert fjárhagslegt tjón. Áður en snjóa leysti um vorið fluttum við nokkurt magn af timbri á þá staði sem þurfti að endurbæta og byggja nýjar girðingar.
Um mitt sumar og s.l haust var svo hafist handa og fengum við gröfu okkur til aðstoðar til að grafa öfluga staura niður á þá staði sem mest mæðir á.
Þessu verki lauk að mestu í október en eftir það sá starfsmaður félagsins um lokafrágang. Aðrar framkvæmdir var ekki farið í þetta sumarið.
11. nóvember 1972 var Skíðafélags Dalvíkur stofnað. Það voru því 30. ár frá stofnun þess 11. nóvember 2002. Ákveðið var að halda upp á tímamótin með afmælisveislu sem haldin var í Brekkuseli. Um undirbúninginn sá nefnd sem einnig sá um útgáfu veglegs afmælisblað sem innihélt greinar og frásagnir um félagið. Blaðinu var síðan dreift meðal annars í Dalvíkurbyggð og víðar. Þessi blaðaútgáfa varð að veruleika vegna þess að Guðmundur Ingi hjá Víkurprent var okkur mjög hjálplegur við útgáfuna eins ávallt þegar til hans er leitað og þökkum við fyrir það.
Um 200 manns mættu í Brekkusel og þáðu veitingar í boði félagsins sem voru ekki af verri endanum. Það voru félagar í Skíðafélaginu sem gáfu terturnar og síðan sá vösk sveit kvenna um að veisluborðið væri alltaf fullt af kræsingum. Í Brekkuseli var komið upp myndasýningu sem innihélt myndir úr félagsstarfinu og uppbyggingu skíðasvæðisins. Þarna voru myndir sem fáir höfðu séð og aðrar sem ekki var vitað um að væru til því margir hafa tekið myndir af svæðinu og félagsstarfinu í gegn um tíðina. Það urðu á endanum milli 5 og 600 myndir sem nú eru til þó svo að aðeins hluti þeirra hafi verið til sýnis.
Í tilefni þessara tímamóta ákveð stjórn félagsins að gera tvo af stofnfélögum Skíðafélagsins að heiðursfélögum. Það hefur væntanlega ekki komið neinum á óvart að þeir eru þeir Þorsteinn Skaftason og Jón Halldórsson. Þó svo að þessir kappar hafi verið heiðraðir er ekki á neinn hallað því margir aðrir eru búnir að vinna mikið í þágu félagsins en þeir Steini og Jón eru búnir að vera að frá stofnun þess. Í dag njóta stjórnendur félagsins þess að þessir kappar komu þessu öllu saman af stað en gríðarleg vinna felst í rekstri félagsins og vex hún ár frá ári. Félagið hefur alla tíð séð um rekstur skíðasvæðisins með dyggri aðstoð Dalvíkurbæjar og nú síðustu ár Dalvíkurbyggðar.
Félaginu bárust margar heillaóskir, kveðjur og gjafir meðal annars peningagjöf frá Dalvíkurbyggð sem Svanhildur Árnadóttir forseti bæjarstjórnar afhenti formanni félagsins. Svanhildur kom inn á mikilvægi þess að sveitafélag eins og Dalvíkurbyggð ætti enn fólk sem tilbúið væri að leggja til mikla sjálfboðavinnu í þágu fjöldans. Hún þakkaði öllum félagsmönnum skíðafélagsinsins fyrir ómetanlegt framlag til samfélags okkar síðustu þrjátíu ár og óskaði félaginu bjarta framtíð um ókomin ár. Þessi orð Svanhildar í þágu félagsins kunnum við vel að meta og þökkum vel fyrir það. Á stjórnarfundi félagsins stuttu síðar var ákveðið að verja þeim peningum til kaupa á öryggisdýnum fyrir svæðið.
Frá því að félagið var stofnað hafa átta aðilar gengt formennsku í því. Jón Halldórsson var fyrsti formaðurinn og á eftir honum og fram til dagsins í dag hafa eftirtaldir aðilar gengt formennsku. Þorsteinn Skaftason, Hjördís Jónsdóttir, Sigurjón Kristjánsson, Brynjólfur Sveinsson, Jóhann Bjarnason, Guðbjörn Gíslason og Óskar Óskarsson. Margir þessara fyrrum formanna eru enn að og starfandi fyrir félagið í stórum og smáum verkefnum.
Daginn sem haldið var upp á afmæli félagsins var komin snjór á skíðasvæðið og kom það til tals að tilvalið væri að bjóða fólki á skíði en ekkert varð af því vegna þess að snjó vantaði í kringum endastöðina. Svæðið opnaði fyrst allra skíðasvæða eins og oft áður en það var 25. nóvember og tókst að hafa opið í sex daga en þá var allur snjór farinn í kringum endastöðina eins og áður hefur komið fram.
Snjóinn hvarf nánast allur okkur til lítillar ánægju og var þetta upphaf að skíðavertíð sem allir vilja gleyma sem fyrst og þarf að fara aftur til áranna 1991 og 1992 til að finna samanburð. Desember 2002 leið án þess að snjóaði að nokkru gagni og ekki nóg með það heldur var janúar nánast allur snjólaus og komumst við ekki á skíði fyrr en 27 janúar. Eftir það gátum við haft opið til 6 mars en við frekar slæmar aðstæður undir það síðasta. Samtals urðu því opnunardagarnir 43 sem verður að teljast gott á landsvísu því ástandið var svipað út um allt land. Þessi vetur segir okkur að alla daga þarf að nota ef aðstæður leyfa og undirstrikar það sem við höfum verið að gera síðustu ár að opna að hausti ef aðstæður eru þannig.
Til gamans ætla ég að vitna í dagbækur félagsins og Brynjólfs Sveinssonar. Þær segja í lauslegri athugun að árin 1991 og 1992 hafi verið með erfiðari skíðavertíðum í Böggvisstaðafjalli frá upphafi og ekki ósvipaðar og þessi sem er ný liðinn. Hér á eftir eru nokkrar staðreyndir úr dagbókum Brynjólfs.
Árið 1991: Engin opnun að hausti (1990). 1 dagur í jan., ekkert í febrúar, síðan opnað 2. mars og þá bara neðri hluti efri lyftu til að byrja með. Síðan var opið í mars og út apríl.
Árið 1992: Engin opnun að hausti (1991). 2 dagar í jan., og síðan opnað aftur 29. febr.- 8. mars en þá var aftur orðið snjólaust. Síðan var aftur opnað 15. mars og til c.a 20. mars. Þessa fáu daga var aðallega hægt að skíða í efri lyftu. Þetta gera u.þ.b. 16 daga alls þessa vertíð.
Þetta ár var samstarf Skíðafélaganna á Dalvík og á Ólafsfirði að hefjast og ætluðum við að halda fyrsta landsmótið á stöðunum en ekkert varð af því og hluti þess fluttur í Hlíðarfjall. Árið 2003 er hugsanlegt að við hefðum ekkert opnað ef við hefðum ekki allar þessar öflugu snjógirðingar sem settar hafa verið upp síðustu ár en þess ber að geta að við höfðum miklu minna af snjógirðingum árin 1991 og 1992. Þetta segir okkur að gera verður ráð fyrir að þetta geti gerst öðru hvoru og verðum við sem erum í þessu að þola þetta ástand þegar það skellur á okkur.
Það sem er verst í þessu öllu saman er að allt okkar starf fer verulega úr skorðum því að við eru með starfsmenn í vinnu sem ráða sig hjá okkur yfir skíðavertíðina og er ekki hægt að segja upp þegar okkur hentar. Það yrði til þess að enn verra yrði að fá starfsfólk til að vinna við skíðasvæðið í þessa fjóra mánuði. Í vetur vorum við með þrjá starfsmenn í vinnu á svæðinu, tvo þjálfara og einn í hlutastarfi. Við lifðum í þeirri von að það kæmi snjór einn daginn en aldrei þessu vant kom hann ekki og því ekki annað í stöðunni en gera ráðstaðvanir til að allt forða félaginu frá mikklum hallarekstri sem stefndi í rúmar tvær milljónir króna ef ekkert breyttist sem varð síðan raunin. Okkur tókst að semja við tvo starfsmenn okkar um að hætta eða minnka við sig vinnu en það hafði mikið að segja fyrir okkur fjárhagslega. Sá þriðji er svæðisstjóri og vinnur hjá félaginu í sex mánuði á ári en ekki verður hreyt við starfi hans þó svo að snjóinn vanti því í mörg horn þarf að líta þó svo að snjólaust sé.
Upp úr miðjum mars var okkur ljóst að við réðum ekki þær skuldir sem hefðu safnast upp eða rúma eina og hálfa milljón en þess ber að gæta að raunskuld félagsins var rúm milljón þar sem útstandandi skuldir vonu um 500.000 kr. sem tókst að innheimta. Dalvíkurbyggð kom okkur til hjálpar og bjargaði félaginu út úr vandanum sem við réðum ekki við en aðallega var um að ræða skuldir sem eru fastir liðir í rekstri svæðisins svo sem tryggingar, rafmagn, olíur og fleira. Við leituðum á náðir bæjarins vegna þess að engin önnur ráð voru til meðal annars vegna þess að félaginu er ekki heimilt að ráðast í skuldasöfnun t.d. með yfirdráttarheimild nema með vitund bæjarins. Dalvíkurbyggð þökkum við veittan stuðning og það traust sem félaginu er sýnt með framlaginu.
Það sem okkur í stjórn félagsins svíður kannski mest er sú mikla vinna sem hefur farið í að koma fjárhag félagsins í réttan farveg fer fyrir lítið eftir svona vetur en á síðustu árum hefur okkur tekist að reka félagið eins vel og kostur er. Nú er þessi erfiði vetur liðinn og á hann sín sérkenni eins og aðrir það er snjóleysi, aðrir vetur eiga sér önnur og oftar en hitt er það eitthvað sem tengist góðum snjóalögum sem betur fer. Við erum full bjartsýni og löngu farinn að huga að undirbúningi fyrir næsta vetur og langt frá uppgjöf heldur erum við að hugsa um það sem framundan er hjá félaginu í áframhaldandi uppbyggingu svæðisins. Við viljum enn auka þjónustuna í fjallinu því eftir því sem hún er betri því fleiri fáum við til að koma hingað á skíði sem er öllum sem bjóða í þjónustu í Dalvíkurbyggð til hagsbóta. Áframhaldandi uppbygging skíðasvæðisins er nauðsýnleg fyrir ferðamannaþjónustu hér í bæ.
Félagsstarfið var með hefðbundnu sniði um sumarið og fram á haust. Sveinn Torfason þjálfari eldra liðsins sá um sumar- og haustæfingar og hóf síðan hefðbundnar æfingar þegar loksins snjóaði seinni partinn í janúar. Yngri krakkarnir voru hins vegar á sameiginlegum æfingum með frjálsíþróttadeild UMSE og gafst það mjög vel og vonandi verður framhald á því samstarfi. Eins og áður hefur komið fram einkenndist veturinn af snjóleysi en þó var allt gert til að halda úti æfingum fyrir alla aldurshópa þar til svæðið lokaði. Frá því að svæðið opnaði og þar til varð að loka aftur vegna snjóleysis tókst að vera með æfingar í 35 daga nánast án þess að dagur félli úr. Snjóalög urðu þó aldrei góð þó svo að þau hafi verið vel nothæf. Þjálfari félagsins var Guðný Hansen og hóf hún störf um áramótin. Guðný gerði allt sem hægt var til að halda úti æfingum eftir að ekki var hægt að vera á skíðum í Böggvisstaðafjalli og var farið í Hlíðarfjall með elstu aldurshópana 2 sinnum í viku. Í vetur skráðu sig 120 börn í æfingar og kennslu sem er fjölgun á milli ára sem við erum mjög ánægð með. Þetta þýddi að Guðný þurfti aðstoðarfólk í sumum aldurshópum og voru Anna Jóhannesdóttir og Elsa Benjamínsdóttir fengnar henni til aðstoðar. Störf Guðnýjar fyrir félagið í vetur voru mjög góð þrátt fyrir að hún þyrfti að glíma við erfiðar aðstæður og hefur hún verið ráðin í þjálfun næsta vetur hjá félaginu. Guðný verður eini þjálfari félagsins næsta vetur en með aðstoðarfólk því ekki er útlit fyrir að það þurfi að ráða þjálfara fyrir eldra liðið sem verður fámennt næstu tvö ár.
Hjá félaginu voru engin mót í vetur, hvorki bikarmót né heimamót sem verður að teljast til tíðinda því síðustu ár hefur verið afar líflegt í mótahaldi hjá okkur bæði á landsvísu og vegna innanfélagsmóta. Það mót sem kannski skiptir mestu fyrir okkur fjárhagslega og ekki tókst að halda er firmakeppni félagsins sem hefur verið okkar stærsta fjáröflun síðustu ár og löngu komin hefð á að halda um páska og hefur verið svo allavega síðastliðin 10 ár. Þessi fjáröflun er að verða sú eina sem félagið hefur haft í friði á þessum árstíma því alltaf þrengist um þær fjáraflannir sem félög hafa úr að moða. Við munum halda áfram að hafa keppnina um páska hefðarinnar vegna og safna áheitum í hana í mars og apríl. Kanski ættum við ekki að örvænta alveg strax því kannski verður mótið á dagskrá í fyrstu snjóum næsta haust og vonumst við eftir að það snjói snemma og veðurguðirnir bæti okkur það snjóleysi sem hefur verið hér í vetur. Ekki eru nema þrjú ár frá því að hér var sex mánaða skíðavertíð sem var með þeim lengstu hjá félaginu.
Í ár eins og mörg undanfarin áttum við nokkra keppendur í landsliðum Skíðasambands Íslands. Þau eru Björgvin Björgvinsson, Snorri Páll Guðbjörnsson, Kristinn Ingi Valsson, Íris Daníelsdóttir og Kári Brynjólfsson. Skafti Brynjólfsson hefur alla tíð verið mjög nálægt því að stimpla sig inn í landsliðið en aðeins hefur vantað herslumuninn. Í vetur dró Íris sig í hlé vegna meiðsla sem hafa verið að hrjá hana allt síðasta ár og vonandi nær hún sér á strik á nýjan leik. Björgvin og Kristinn Ingi dvelja erlendis á veturna, Snorri Páll og Skafti voru á afreksbrautinni í framhaldsskólunum á Akureyri sem er nýjung sem kemur sér vel fyrir þá sem ekki fara erlendis og síðan æfði Kári á Dalvík eftir bestu getu.
Eins og áður hefur komið fram héldum við engin mót í vetur en samt sem áður tókst að halda allflest bikarmót SKI. Skíðamót Íslands var haldið í Hlíðarfjalli og Unglingameistaramót Íslands strax á eftir vegna lélegra aðstæðna í Bláfjöllum þar sem mótið átti upphaflega að fara fram. Ekki lét árangur okkar fólks á sér standa frekar en fyrri daginn. Helstu úrslit urðu þessi. Björgvin vann bæði svig og stórsvig og þar með alpatvíkepnina. Hann vann einnig alþjóðlegu mótin þrjú sem voru samhliða SMI. Sveinn Brynjólfsson tók skíðin fram og keppti í vetur og keppti meðal annars á landsmótinu og komst á pall í sviginu með því að verða fimmti. Á Unglingamótinu varð Snorri Páll unglingameistari í stórsvigi og þriðji í svigi og með þeim árangri vann hann alpatvíkeppnina. Þessi árangur gerði hann að einnig að bikarmeistara SKI í flokki 15-16 ára. Aðrir keppendur á þessum mótum stóðu sig einnig með prýði og sýna svo ekki verður um villst að Skíðafélag Dalvíkur vinnur öflugt starf en því fylgir ákveðið vandamál. Það hljómar kannski undarlega að það að eiga slíkan fjölda afreksfólks gerir okkur mjög erfitt fyrir. Kostnaðasamar útgerðir skíðafólks eru okkur og fjölskyldum keppnisfólksins þungar í skauti. Félagið getur ekki nema að litlu leyti komið til móts við þessa aðila og sem dæmi getur farið svo að okkar besta fólk sem velur að æfa hérlendis fari að keppa undir merkjum annarra félaga til að spara sér peninga. Til dæmis styrkir Skíðafélag Akureyrar þá keppendur sem keppa undir þeirra merkjum. Það verður okkur ekki létt ef okkar fólk fer að keppa undir annara merkjum og mun hljóma hálf asnalega í eyrum okkar ef velgengni okkar fólks á bikar- og Íslandsmótum verður kennd við önnur félög. Sú útgerð sem er dýrust af þessum öllum er úthald Björgvins sem kostar á bilinu 4.5-5 miljónir króna og höfum við stofnað bakvarðsveit sem hefur það að markmiði að gera Björgvini kleift að stunda íþróttina áfram. Í dag vitum við ekki hvort tekst að fjármagna næsta úthald en ljóst að allt verður gert til að það takist. Björgvin hefur vakið mikkla athygli fyrir afrek sín og hefur komið okkur og Dalvíkurbyggð margsinnis í umræðuna í fjölmiðlum landsins sem er okkur öllum mjög mikilvægt. Í dag er engin annar íþróttamaður í Dalvíkurbyggð í sama styrkleikaflokki og Björgvin. Það að eiga íþróttamann í þeim styrkleikaflokk sem Björgvin er í er mikil hvatning fyrir aðra íþróttamenn í Dalvíkurbyggð og bæjarfélagið sjálft og sýnir um leið hversu vel er að íþróttafólki hlúð hér. Aðrir úr afreksmannahópi okkar eru ekki að leggja "nema" þetta á bilinu 700.000 kr. - 1.500.000 kr. í útgerð sína á ári. Skíðafélag Dalvíkur lagði þessum aðilum til um 350.000 kr. í vetur sem er eins og dropi í hafið en kemur samt að góðum notum. Í ljósi þessara aðstæðna vinnur félagið nú að því að setja sér reglur sem við verðum að vinna eftir næstu ár því félagið hefur ekki fjármagn í frekari styrki til afreksfólks sérstaklega ef það nýtur styrkja annarstaðar frá og sumir hverjir eru fengnir að frumkvæði félagsins. Samstarf félagsins, keppenda og foreldra verður að vera traust og allir verða að vera samtaka um að gera keppandanum kleift að vera í íþróttinni án þess að peningaáhyggjur hafi áhrif á árangur viðkomandi.
Andrésar Andarleikarnir voru flautaðir af 19. apríl vegna lélegra aðstæðna í Hlíðarfjalli en þá var búið að vera mjög hlýtt í veðri og hiti farið yfir 20 stig Norðanlands. Ef allt hefði verið með felldu hefðu um 70 krakkar frá félaginu átt kost á að taka þátt í leikunum sem er að verða mjög nálægt því sem var mest hjá félaginu en þá fóru um 80 börn á leikana frá félaginu. Þetta var í fyrsta skiptið í 27 ára sögu Andrésarleikanna í Hlíðarfjalli sem leikarnir eru flautaðir af vegna snjóleysis. Andrésarfarar víðsvegar af landinu hittust samt sem áður í Kjarnaskógi á sumardaginn fyrsta og gerðu sér glaðan dag.
Eins og fram kemur hér að framan var síðasta starfsár misjafnt. Það sem er mjög jákvætt og skiptir okkur gríðarlega miklu máli er uppbyggingar- áætlunin sem hefur verið samþykkt að vinna að eftir bestu getu og vonandi verður fylgt eftir næstu ár. Það sem var okkur hins vegar afar erfitt var snjóleysið og sér ekki enn fyrir endann á því fjárhagstjóni sem það olli en við vonumst eftir að geta unnið okkur út úr því sem út af stendur sjálf. Við horfum björtum augum á framtíðina og setjum þennan vetur til hliðar þó svo að hann verði okkur ofarlega í huga fyrst um sinn en sem betur fer gleymist ekkert jafn fljótt og snjóalög og veðurfar.
Í lok þessa árs lýkur samstarfssamningi milli félagsins og Dalvíkurbyggðar sem hefur verið í gildi síðastliðin þrjú ár. Samninginn þarf að endurnýja og yfirfara. Þær breytingar sem ég tel helst þurfi að gera, er að hjá félaginu þurfi að vera til eitt heilsárs starf í stað sex mánaðar eins og er í dag. Þessi aðili gæti annast margþætt verkefni og má nefna viðhald ýmiskonar, fjáraflanir, umsjá með Brekkuseli allt árið og jafnvel vera með verkefni í samvinnu við gjaldkera s.s innheimtu og fleira Þessir liðir taka mikinn tíma og vart hægt að ætlast til að þeir séu allir unnir í sjálfboðavinnu þó svo að alltaf verði stefnt að því að gera sem mest af þessu í sjálfboðavinnu. Síðan er það alveg ljóst að þegar framkvæmdir í uppbyggingu svæðisins hefjast verður að vera starfsmaður sem fylgir þeim framkvæmdum eftir. Svo er það einn liður sem alltaf berst í tal þegar peningamál félagsins eru rædd er skuldabréfið sem við tókum fyrir fimm árum og þá til sjö ára. Afborganirnar af láninu hafa verið okkur mjög erfiðar þó svo að okkur hafi alltaf tekist að standa í skilum. Eftir stöðvar af láninu eru um 1.300.000 og klárast það eftir tvö ár. Það verður okkur erfitt að borga 60.000 krónur á mánuði af láninu það sem eftir er árs vegna tekjuleysis í vetur en það verður að koma í ljós hvort það tekst. Lánið væri best að greiða upp því mikill kostnaður er af slíku láni og vil ég að það verði rætt þegar samningurinn verður endurnýjaður. Ég óttast ekki að það verði erfitt verk að semja um nýjan samning í ljósi þess trausts sem Dalvíkurbyggð hefur sýnt okkur með framlögum og styrkveitingum síðustu ár. Að mínu mati á félagið að halda rekstri svæðisins áfram ef til þess fæst nægjanlegt fjármagn. Fram hefur komið að Dalvíkurbyggð er að spara sér mikla peninga með því að Skíðafélagið reki svæðið. Rekstur sambærilegs skíðasvæðis kostar milli 9 og 10 milljónir kr. á ári. Framlag Dalvíkurbyggðar til okkar á síðasta ári var 4.3 milljónir kr.
Meðfylgjandi er ársreikningur félagsins fyrir árið 2002. Þar kemur fram að okkur tókst að reka félagið með rúmlega 170.000 kr. hagnaði. Það skal tekið fram að líklega hefði orðið einhver halli á rekstrinum ef ekki hefðu verið tekjur af svæðinu í nóvember 2002.
Gert hefur verið gróft uppgjör frá áramótum og fram til dagsins í dag. Staðan verður að teljast ágæt miðað við veturinn eða um 140.000 kr. tap sem ekki er útilokað að takist að jafna með því spara hverja krónu út árið.
Framundan eru spennandi tímar hjá félaginu í uppbyggingu bæði svæðisins og í félagsstarfi sem við teljum verða betra ár frá ári og leggjum mikla áherslu á að vanda til. Starfsfólki okkar þökkum við fyrir veturinn svo og okkar samstarfs-og styrktaraðilum sem brugðust okkur ekki frekar en fyrri daginn þrátt fyrir erfiðan vetur.
Stjórn og nefndum félagsins þakka ég fyrir samstarfið og vonast eftir áfamhaldandi góðu samstarfi næsta starfsár .
f.h. stjórnar
Skíðafélags Dalvíkur
______________________
Óskar Óskarsson formaður