Ætlar þú að taka þátt í Símaþrautinni?

Dagana 5. og 6. apríl næstkomandi gefst áhorfendum á Skíðamóti Íslands á Dalvík og í Ólafsfirði kostur á að taka þátt í Símaþrautinni. Símaþrautin er nýlunda hér á landi þar sem besta skíðafólk landsins keyrir stutta svigbraut með um 15 hliðum í tímatöku. Tími þeirra er síðan skráður á þar til gerð viðmiðunarblöð og almenningi gefst síðan kostur á að reyna sig á móti þeim bestu. Allir fá verðlaunamerki Símaþrautarinnar sem taka þátt, gullverðlaun hlýtur sá sem er 0-5 sek. á eftir fyrsta keppanda, silfurverðlaun eru veitt þeim sem verða 6-10 sek. á eftir og bronsverðlaun eru veitt þeim sem verða 11 sek. eða meira á eftir fyrsta keppanda. Það er Síminn, einn af aðalstyrktaraðilum Skíðasambands Íslands sem býður upp á Símaþrautina en á dögunum var undirritaður samningur við Símann vegna þessa viðburðar. Markmiðið með Símaþrautinni er að gefa almenningi tækifæri til að keppa á móti okkar besta skíðafólki sem og að prófa eitthvað nýtt. Símaþrautin mun án efa vekja mikla athygli á mótssvæðinu og auka á stemmingu þeirra fjölmörgu áhorfenda sem leggja leið sína á Dalvík og Ólafsfjörð á Skíðamót Íslands 2002.