01.03.2006
Hægt væri að koma í veg fyrir sex af hverjum tíu höfuðáverkum meðal skíðafólks ef allir notuðu hjálma, að því er ný norsk rannsókn leiðir í ljós. Á vefnum forskning.no er greint frá því að 3.277 slys á norskum skíðasvæðum hafi verið skráð árið 2002, þar af voru 16,7% höfuðáverkar. Í ljós kom að snjóbrettafólk á helmingi frekar á hættu að meiðast á höfði en skíðafólk og að yngri iðkendur, karlar og byrjendur séu einnig frekar í áhættuhópi. Hjálmar koma að góðum notum hjá öllum áhættuhópum en notkun þeirra er þó ekki orðin útbreidd nema hjá börnum.
Hjá skíðafólki yfir tvítugu notuðu aðeins 13% hjálm og í aldurshópnum 13-20 ára notaði fimmtungur hjálm. Hins vegar er hlutfallið 85% hjá börnum undir 13 ára aldri.
Viðhorfsbreyting er nauðsynleg, að mati Roald Bahr hjá norska Íþróttaháskólanum sem stendur að rannsókninni. Að hans mati eiga fullorðnir að ganga á undan með góðu fordæmi og hlutverk þeirra sem fyrirmyndir barna mjög mikilvægt.