25.01.2003
Æfingar hófust á þriðjudag hjá öllum aldurshópum hjá Skíðafélagi Dalvíkur. Að sögn Guðnýjar þjálfara er mæting mjög góð og þegar hafa um 80 börn skráð sig á æfingar. Snjórinn er frekar lítill enn sem komið er en hann er á leiðinni samkvæmt spá yngsta meðlims veðurklubbsins á Dalbæ þá er þetta allt á áætlun en hann sagði að veður myndi breytast18. jan.
Grípum ofaní janúarspána frá Dalbæingum en þar segir meðal annars.
Nýtt tungl kviknar 1. febrúar í SA, flestir telja líkur á að þar sé komið að því að skipta um gír og við fáum að finna fyrir því sem við íslendingar þekkjum, yngsti meðlimurinn í klúbbnum var sá eini sem var viss um að í kring um 18. janúar yrði breyting á og veturinn kæmi með þunga, þó ekki að fullum þunga strax.
25. janúar er Pálsmessa, oft skiptir máli hvernig veðrið er þann dag.
Í dag er 25. janúar og því er Pálsmessa í dag!
Ef heiðríkt er úti veður
á Pálsmessu degi
gróða og gæða meður
get eg að vænta megi.
En ef sterkleg stormahríð
styrjöld gjörir að bjóða
halda menn það merki stríð
millum heimsins þjóða.
En ef þokan Óðins kvon
á þeim degi byrgir
fénaðar dauða og fellirs von
forsjáll bóndinn syrgir.
Falli snjór eða drífi dögg
dult skal ei hvað þýðir
hefur þjóðin haldið glögg
harðdrægar ársins tíðir.