- skíðasvæði Dalvíkur
- Félagið
- Iðkendur
- English
- Jónsmót
Miðvikudaginn 17. júlí sl. stóð stjórn Skíðafélags Dalvíkur fyrir almennum félagsfundi að Rimum. Ástæður fundar á þessum árstíma voru m.a. erfið fjárhagsstaða félagsins og fyrirhugaðar breytingar á rekstrarumhverfi, deiliskipulag í fólkvangi auk landbreytinga sem eru framundan á skíðasvæðinu. Fundurinn var fámennur en góður og full þörf á kynningu þessarra málefna.
Farið var yfir helstu verkefni síðustu ára, þau verkefni kynnt sem unnið hefur verið að í sumar og hvað sé framundan á næstu mánuðum.
Erfið rekstrarstaða og sá fjárhagsvandi sem félagið hefur staðið frammi fyrir var til umræðu en nú í sumar samþykkti Dalvíkurbyggð að veita 12 milljón króna viðbótarframlag til félagsins vegna mikils viðhaldskostnaðar og almenns rekstrarvanda. Í dag stendur yfir vinna við gerð nýs samnings Skíðafélags Dalvíkur og Dalvíkurbyggðar en núverandi samningur rennur út um áramót. Öllum sem að málinu koma er kunnugt um vanda félagsins og þeirri gífurlegu sjálfboðavinnu sem fram fer til að hægt sé að halda starfsemi skíðasvæðisins gangandi. Meðal þess sem stjórn ætlar að leggja áherslu á í nýjum samningi er hækkun á fjárframlagi til rekstrar svæðisins og fjármagn til þess að geta ráðið starfsmann í heilsárs staf á svæðinu. Ef það tekst verður hægt að minnka sjálfboðavinnu stjórnar og félagsmanna umtalsvert sem var sem dæmi 3200 tíma á árinu 2018. Þá telur stjórn að gera verði ráð fyrir fjármagni til snjóframleiðslu í nýjum samningi sem ekki hefur verið hingað til.
Deiliskipulag í Böggvisstaðafjalli var kynnt og það tekið fram að þær hugmyndir sem Dalvíkurbyggð vinnur eftir í dag eru að mestu komnar frá íbúafundi sem haldinn var í desember sl. og frá áhugasömum einstaklingum. Lítið samráð hefur verið haft við Skíðafélagið í tengslum við málið og tillögurnar því ekki komnar frá stjórn félagsins.
Framtíðarsýn og fyrirhuguð verkefni voru til umræðu og bar þar hæst krafa félagsins um byggingu nýrrar vélageymslu á svæðinu, kaup á nýjum troðara innan fárra ára, bílaplan og lýsing á vegi upp að Brekkuseli.
Þá kom fram að á síðasta ári sendi félagið umhverfisráði Dalvíkurbyggðar erindi sem vísaði var til Umhverfisstofunnar. Þar var óskað eftir ákveðnum landbreytingum á svæðinu til þess að bæta aðstæður, fjarlægja stórgrýti úr brekkunni norðan við neðri lyftuna auk þess að óska eftir leyfi til að færa efra hús og laga undirstöður sem eru að gefa sig. Umhverfisstofnun samþykkti allar tillögur bréfsins en þó með ákveðnum skilyrðum. Á næstu dögum verður hafin vinna við að fjarlægja grjót úr brekkunni norðan við neðri lyftu.
Fleira var ekki bókað á fundinum. Það skal tekið fram að félagsmönnum er hvenær sem er frjálst að hafa samband við stjórn félagsins eða senda okkur línu ef þeim liggur eitthvað á hjarta. Þá er annar félagsfundur fyrirhugaður þegar skíðavertíðin er hafin og verður fundurinn auglýstur á heimasíðu félagsins.
Brekkusel | 620 Dalvik Kt: 4903810319 |
Hægt er að hafa samband við svæðisstjóra
|
Skíðasvæði Dalvíkur s: 466-1010 email: skidalvik@skidalvik.is tv