29.05.2002
Gengið hefur verið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra Skíðasambands Íslands, en eins og mörgum ætti að vera orðið kunnugt um, lætur Bjarni Friðrik Jóhannesson af störfum í lok júní.
Nýi framkvæmdastjórinn heitir Andri Stefánsson. Andri er 29 ára gamall. Hann lauk íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands vorið 1996 og námi í íþróttafræði/íþróttastjórnun frá Kaupmannahafnarháskóla vorið 1997. Þá hefur hann stundað rekstrarfræði- og stjórnunarnám í Danmörku síðastliðin ár samhliða vinnu. Andri hefur starfað töluvert innan íþróttahreyfingarinnar, bæði hjá íþróttafélögum, sérsamböndum og ÍSÍ. Hann hefur t.d. starfað við lyfjapróf á vegum ÍSÍ og hannað mannvirkjavef ÍSÍ sem tekinn var í gagnið fyrir nokkrum mánuðum. Auk þess vann hann um árabil við sölu- og markaðssetningu íþróttavara hjá Austurbakka. Stjórn Skíðasambands Íslands býður Andra velkominn til starfa.