Björgvin Björgvinsson fyrstur eftir fyrri ferð í sviginu.

Björgvin Björgvinsson frá Dalvík er með lang besta tímann eftir fyrri ferð í svigi á Skíðamóti Íslands á Akureyri. Stefán Jón Sigurgeirsson frá Húsavík er annar og Akureyringurinn Jón Viðar Þorvaldsson þriðji. Björgvin fór brautina á 44,29 sekúndum, Stefán Jón á 46,27 og Jón Viðar á 47,21. Alþjóðlega mótið Icelandair Cup fer fram samhliða Skíðamóti Íslands. Tími Björgvins var einnig sá besti í því móti, annar er Urs Imboden sem keppir fyrir Moldavíu, á 44,87 sek., þriðji Svíinn Fredrik Nordh á 46,02, fjórði Luka Zajc frá Slóveníu á 46,10 og fimmti Hollendingurinn Joery Van Rooij á 46,19. Tími Stefáns var sá sjötti besti.