31.12.2002
Í gær var Björgvin Björgvinsson skíðamaður kjörinn íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2002. Þetta er mikil viðurkenning fyrir Björgvin og Skíðafélag Dalvíkur sem sendi eftirfarandi greinargerð með tilnefningunni.
Björgvin Björgvinsson er án efa besti skíðamaður landsins og jafnframt einn fremsti íþróttamaður Íslands um þessar mundir. Það hefur hann marg sannað með frammistöðu sinni á alþjóðlegum FIS mótum bæði hér heima og erlendis. Hann keppti fyrir Íslands hönd á vetrarólympíuleikunum í Salt Lake City s.l. vetur. Því miður tókst honum ekki að ljúka keppni þar en þess má geta að aðeins nokkrum vikum áður tók hann þátt í móti þar sem hann stóð framar en nokkrir þeirra sem voru í toppslagnum á Ól.
Björgvin náði mjög góðum árangri á Skíðamóti Íslands í ár þar sem hann varð íslandsmeistari í stórsvigi karla. Einnig varð hann sigursæll á mótaröðinni Icelandaircup sem haldin er samhliða Skíðamóti Íslands.
Björgvin hefur æft með Evrópubikarliði frænda okkar Norðmanna sem samanstendur af ungum strákum í sigurleit. Hann sýndi það margoft á síðustu vertíð að þegar allt gengur upp eru fáir sem slá honum við. Um þessar mundir er Björgvin í Noregi við æfingar og keppni. Björgvin kemur til með að taka þátt í nokkrum heimsbikarmótum í vetur, etja kappi við bestu skíðamenn heims og vonandi gengur allt upp þá!
Staða Björgvins á heimslista alþjóða skíðasambandsins í dag er þannig að í stórsvigi er hann í 112. sæti með 24.81 FIS stig og í svigi er hann í 199. sæti með 28.75 FIS stig.
Sveinn Torfason þjálfari.