Björgvin Björgvinsson íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2006

Rétt í þessu var verið að tilkynna hver er íþróttamaður Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2006. Þetta er í ellefta skiptið sem kjörið fer fram. Björgvin Björgvinsson var kjörinn í sjöunda sinn, fimmta skiptið í röð. Fyrst varð hann fyrir valinu árið 1996 en það ár var bikarinn veittur í fyrsta sinn, næst var hann kjörin 1998. Björgvin hefur síðan orðið fyrir valinu síðan árið 2002. Ekki skemmdi það fyrir að Kristinn Ingi Valsson fékk sérstaka viðurkenningu fyrir árangur sinn í skíðabrekkunum síðustu ár og ekki síst fyrir þann frábæra árangur á komast á Ólympíuleikanna sem haldnir voru á Ítalíu á þessu ári. Skíðafélag Dalvíkur er að vonum stollt af þeim félögum því þessir drengir hafa í gegn um árin gert góða hluti í skíðabrekkunum og eiga eflaust eftir að gera það í nánustu framtíð. Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri ávarpaði íþróttamennina og hrósaði þeim fyrir frammistöðu sína og nefndi mikilvægi þess að bæjarfélög eins og Dalvíkurbyggð ætti öfluga íþróttamenn. Á myndasíðunni eru myndir frá kjörinu. Greinargerð um Björgvin Björgvinsson: Tilnefning Skíðafélags Dalvíkur í kjöri á Íþróttamanni Dalvíkurbyggðar 2006 er Björgvin Björgvinsson. Björgvin hefur verið fastamaður í landsliði skíðamanna síðan 1995 og er nú í A landsliði SKI eins og undanfarin ár. Björgvin er mikill keppnismaður og gefur allt sem hann á í íþrótt sína og hefur síðustu ár náð árangri sem alla íþróttamenn dreymir um. Frammistaða Björgvins á síðustu árum er það góð að hann er á B styrk hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands. Undirbúningur Björgvins fyrir síðustu skíðavertíð miðaðist allur við stór verkefni en það voru keppnir í Evrópubikar, Heimsbikar og á Ólympíuleikum. Árangur Björgvins á árinu er frábær. Hann náði að bæta sig verulega á heimslista og nældi sér í um það bil 30 Evrópubikarstig. Þessi stig vann hann sér inn með því að vera innan við 30 í fjölmörgum Evrópubikarmótum sem hann tók þátt í. Hann vann einnig fjölmörg alþjóðleg mót (FIS) síðastliðin vetur og hefur meðal annar unnið eitt slíkt og orðið annar í öðru síðustu daga. Á Ólympíuleikunum sem fram fóru á Ítalíu í febrúar sl. varð hann í 22. sæti í svigi sem er frábær árangur hjá honum og um leið besti árangur sem íslenskur skíðamaður hefur náð á Ólympíuleikum fram til þessa. Á Skíðamóti Íslands sem haldið var hér á Dalvík varð hann þrefaldur Íslandsmeistari, í svigi og stórsvigi og þar með Íslandsmeistari í alpatvíkeppni. Samhliða Skíðamóti Íslands var FIS mótaröð, Icelandair Cup sem hann vann með glæsibrag. Þessa dagana er Björgvin við æfingar bæði hér heima og erlendis, en aðstæður hafa verið þannig síðustu vikur að hann hefur meðal annars getað nýtt sér aðstæðurnar hér í heimabyggð uppí Böggvisstaðarfjalli sem er frábært fyrir hann og skíðaáhugafólk hér á Dalvík. Framundan eru fjölmörg mót hjá honum erlendis en hæst ber þó Heimsmeistaramótið sem fer fram í Åre í Svíþjóð í febrúar nk. Skíðafélag Dalvíkur