02.12.2004
Okkar maður, Björgvin Björgvinsson gerði mjög góða hluti á stórsvigsmóti í Finnlandi í dag. Nágranni okkar Kristján Uni Óskarsson frá Ólafsfirði keppti einnig í dag. Þeir félagar hafa því lokið keppni á tveimur Evrópubikarmótum í stórsvigi í Finnlandi.
Í fyrra mótinu sem fór fram í gær tókst þeim hvorugum að klára seinni ferðina. Í dag tókst þeim hinsvegar báðum að klára fyrri ferðina og var Björgvin í 39. sæti en Kristján náði ekki að vera á meðal 60 fyrstu og fékk því ekki að fara seinni ferðina. Í fyrri ferðinni var Björgvin með rásnúmer 68, í seinni ferðinni var hann með rásnúmer 39 og náði 25. besta tímanum þannig að hann endaði í 30. sæti 3,5 sekúndum á eftir Mirko Deflorian frá Ítalíu sem var fyrstur.
Fyrir árangurinn fékk Björgvin 32,57 FIS stig en hann er með 31,76 FIS stig á nýjasta lista FIS. Það sem hefur mun meiri þýðingu er að Björgvin fær 1 Evrópubikarstig og mun því hafa töluvert betra rásnúmer á næsta Evrópubikarmóti í stórsvigi.
Næstu stórsvigsmót í Evrópubikarnum verða í Valloire í Frakklandi 6. og 7. desember og 16. desember í svigi í Obereggen á Ítalíu. Ljóst er að spennandi verður að fylgjast með Evrópubikarnum í vetur þar sem að Íslendingar eiga í fyrsta skipti í mörg ár tvo ákaflega frambærilega keppendur.