24.09.2005
Bætti stöðu sína á heimslistanum verulega
Skíðamaðurinn Björgvin Björgvinsson keyrði út úr brautinni á síðasta svigmótinu í Ástralíu - Nýja Sjálandsbikarnum sem fram fór í nótt (að íslenskum tíma) í Turoa á Nýja Sjálandi .
Björgvin var með langbesta tímann eftir fyrri ferðina, en náði ekki að ljúka þeirri seinni. Þar með missti Björgvin af því að verða Álfumeistari í svigi, en hann var efstur að stigum fyrir þetta mót. Eins og dagur.net skýrði frá í gær varð Björgvin Álfumeistari í stórsvigi, og hann varð einnig efstur að stigum í samanlögðu og hlaut því einnig Ástralíu - Nýja Sjálandsbikarinn í samanlögðu. Björgvin sagði í samtali við dag.net að hann væri mjög ánægður með árangurinn, að vísu hefði verið betra að vinna svigið en það yrði ekki á allt kosið. Björgvin kvaðst jafnframt ánægður með að hversu mikið hann hefði náð að bæta stöðu sína á heimslistanum. ,,Ég var í 103 sæti í sviginu en er kominn niður í u.þ.b. 75.-80. sæti í stórsviginu var ég í 230 sæti en er kominn niður í u.þ.b. 140. sæti. Það þýðir að maður færist fram í rásröðinni á stærri mótum, sem vonandi leiðir til betri árangurs." Björgvin sagðist vera í mjög góðu líkamlegu formi um þessar mundir. ,,Ég held að ég hafi aldrei verið í betra formi. Ég æfði mjög vel í sumar og gat einbeitt mér alveg að æfingum og undirbúningi og það er að skila sér núna." Björgvin er nú á heimleið, en ferðalagið frá Nýja-Sjálandi til Íslands tekur þrjá sólarhringa. Hann verður svo í fimm daga fríi á Íslandi, en heldur síðan til Austurríkis til æfinga. Þá er keppni í heimsbikarnum framundan og innanhússmót í Hollandi svo eitthvað sé nefnt."