30.12.2007
Björgvin Björgvinsson íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2007. Rétt í þessu var verið að tilkynna hver er íþróttamaður Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2007. Þetta er í tólfta skiptið sem kjörið fer fram.
Björgvin Björgvinsson var kjörinn í sjöunda sinn, sjötta skiptið í röð. Fyrst varð hann fyrir valinu árið 1996 en það ár var bikarinn veittur í fyrsta sinn, næst var hann kjörin 1998. Björgvin hefur síðan orðið fyrir valinu frá árinu 2002.
Björgvin Björgvinsson:
Björgvin er fastamaður í landsliði Skíðasambands Íslands og einn fremsti íþróttamaður landsins í dag. Hann hefur með dugnaði og elju náð ótrúlegum árangri í þessari erfiðu íþrótt síðustu ár og tekið þátt í öllum stærstu mótum í íþróttinni fyrir Íslands hönd.
Hann æfir með landsliði SKI stærðstan hluta ársins en æfingar fara að langstærðstum hluta fram erlendis.
Síðastliðið keppnistímabil tók hann meðal annars þátt í Evrópubikarmótaröðinni þar sem hann nældi sér í 25 stig. Þá tók Björgvin þátt í fjölmörgum alþjóðlegum mótum á vegum FIS þar sem hann stóð sig vel. Þá tók hann þátt í Heimsmeistaramótinu í Åre sem fór fram í febrúar.
Á Skíðamóti Íslands sem haldið var á Akureyri síðastliðið vor varð hann þrefaldur Íslandsmeistari, í svigi og stórsvigi og þar með Íslandsmeistari í alpatvíkeppni. Samhliða Skíðamóti Íslands var FIS mótaröð, Icelandair Cup, sem hann vann með yfirburðum.
Björgvin vann Eysteinsbikarinn annað árið í röð og er því eini skíðamaðurinn sem fengið hefur þennan veglega bikar og eitt þúsund dollara að gjöf fyrir besta samanlagðan árangur í skíðamótum sem íslenskir karlkyns skíðamenn taka þátt í ár hvert. Þennan veglega verðlaunagrip og verðlaunafé gefur hinn fyrrum skíðameistari Eysteinn Þórðarson og eiginkona Pamela en þau eru búsett í Angels Falls í Californíufylki á vesturströnd Bandaríkjanna.
Í haust tók Björgvin þátt í Álfubikarkeppninni í þriðja sinn en keppnin fer fram í Ástralíu og á Nýja Sjálandi. Þar náði hann frábærum árangri og sigraði mótaröðina með yfirburður.
Hann náði að vinna 6 mót , 3 svig og 3 stórsvig , hann varð tvisvar í öðrusæti í svigi og tvíkeppni , einu sinni í þriðja sæti í risasvig og tvisvar í sjötta sæti í stórsvig og risasvigi.
Þessi árangur tryggir Björgvini start innan við 30 í öllum Evrópubikarmótum í vetur.
Þegar þetta er skrifað hefur hann keppt í einu slíku en mótið fór fram Landgraaf í Hollandi. Þar náði Björgvin mjög góðum árangri í svigi og endaði í 27 sæti en allir þeir sterkustu sem koma til með að keppa í Evrópubikarnum í vetur voru með.