01.09.2002
Nú er ljóst að Björgvin Björgvinsson skíðamaður frá Dalvík verður við æfingar með Evrópubikarliði Norðmanna í vetur en nokkur óvissa var fram eftir sumri um það hvar hann myndi æfa í vetur.
Fyrsta æfingin sem Björgvin fer á með Norðmönnum hefst 13. september n.k. en þess má geta að Björgvin er ekki ókunnugur í herbúðum Norðmanna því hann æfði einnig með þeim s.l. vetur.
Þessi niðurstaða er öllum mikill léttir því mikil vinna hefur verið lögð í að koma Björgvini fyrir á sem bestum stað. SKI, Alpagreinanefnd SKI og Haukur Bjarnason hafa unnið í að koma þessu máli í höfn í samstarfi við Skíðafélag Dalvíkur og færum við þeim bestu þakkir fyrir.
Mikill kostnaður fylgir slíkri útgerð og hefur Skíðafélag Dalvíkur unnið að því síðustu vikur að finna styrktaraðila fyrir Björgvin. Greint verður frá því næstu daga hér á síðunni hverjir verða aðalstyrktaraðilar hans næsta vetur.
Að lokum má geta þess að Dagný Linda Kristjánsdóttir frá Akureyri æfir einnig í vetur með Evrópubikarliði Norðmanna og því er ljóst að bestu skíðamenn landsins æfa með Norðmönnum í vetur og ekki spillir fyrir að þau eru bæði Eyfirðingar.