Björgvin og Dagný kepptu í Evrópubikar í dag

Þessa frétt er að finna á heimasíðu SKI. Björgvin Björgvinsson, Skíðafélagi Dalvíkur, keppti í stórsvigi á Evrópubikarmóti í Levi í Finnlandi í dag. Björgvin lenti í 35. sæti en 87 voru skráðir til keppni. Hann fór fyrri ferðina á 1:02,04 og þá síðari 0:58,23 eða alls 2:00,27 sem gaf honum 30,60 punkta. Þess má geta að tími Björgvins í seinni ferð var 20 besti tími mótsins. Hannes Reichelt frá Austurríki sigraði á mótinu á samanlögðum tíma 1:57.65 sem gaf 11.45 punkta. Þá keppti Dagný Linda Kristjánsdóttir, Skíðafélagi Akureyrar, einnig á stórsvigsmóti í dag. Fyrsta mót hennar í Evrópubikar var í Al í Noregi. Dagný Linda lenti þar í 42. sæti en 89 voru skráðir til leiks. Tími hennar í fyrri ferð var 1:21,87 og í þeirri síðari 1:24,06 eða alls 2:45,93 sem gaf 43.30 punkta. Fabienne Suter frá Sviss sigraði í mótinu á samanlögðum tíma 2:39,14 sem gaf 6.61 punkta. Bæði þessi mót í dag voru mjög sterk og mikið af heimsbikarmótskeppendum voru skráðir í mótið en keppni vetrarins er komin á fullt skrið. Í dag og á morgun keppir Björgvin síðan í svigi og Dagný Linda heldur áfram keppni í stórsvigi á morgun.