27.12.2002
Kaupfélag Eyfirðinga styrkti í dag þá Björgvin Björgvinsson og Kristinn Inga Valsson skíðamenn úr Skíðafélagi Dalvíkur um 400.000 krónur. Þessi styrkur sem kemur úr Menningar og viðurkenningarsjóði KEA skiptir miklu máli fyrir þá félaga þar sem þeir eru í kostnaðarsamri útgerð.
Eins og áður hefur komið fram þá var stofnaður stuðningshópur fyrir Björgvin Björgvinsson sem hefur það að markmiði að létta honum róðurinn fjárhagslega og með þessum styrk fer að sjá fyrir endan á fjármögnun veru hans með norska evrópubikarliðinu sem kostar um 4.500.000 á ári. Þeir sem þegar hafa lagt Björgvini lið eru: Sparisjóður Svarfdæla, Fiskmiðlun Norðurlands, Sæplast og nú síðast Kaupfélag Eyfirðinga.
Kristinn Ingi er í skíðamenntaskóla í Oppdal í Noregi og því kemur þessi styrkur sér einnig vel fyrir hann.
Þess má geta að Dagný Linda Kristjánsdóttir skíðakona frá Akureyri fékk einnig 400.000 kr. styrk úr sjóðnum en hún æfir með Norska evrópubikarliði kvenna.