Björgvin stefnir á toppinn

Dalvíkingurinn Björgvin Björgvinsson er ákveðinn í að ná langt í skíðaíþróttinni. Nú sem aldrei fyrr er það "allt eða ekkert". Kjörorð Björgvins eru;"ég vil", "ég skal" og "ég get". Það er gríðarlega dýrt fyrir Björgvin að leggja stund á íþrótt sína, enda er hann bróðurpart úr ári við æfingar og keppni fjarri heimahögum. Því hefur Skíðafélag Dalvíkur haft forgöngu um að mynda stuðningshóp - "Bakverðir Björgvins" - sem gerir Björgvin mögulegt að stunda íþrótt sína að kappi í vetur. Þessu fagnar Björgvin mjög, enda segir hann að vegna mikils kostnaðar hafi hann nánast verið búinn að taka ákvörðun um að hætta á skíðunum, þvert á vilja hans. Þeir sem þegar hafa ákveðið að vera aðilar að "Bakvörðum Björgvins" eru Sparisjóður Svarfdæla, Fiskmiðlun Norðurlands og Sæplast. Vilji er allt sem þarf! Síðustu daga hefur Björgvin verið við æfingar á jöklum í Noregi, en núna í vikunni fer hann til Austurríkis. Hann hefur þó síður en svo tekið því rólega því mikilvægt er fyrir skíðamann sem stefnir á að verða í hópi þeirra bestu að sleppa ekki úr degi. Stöðugar æfingar eru lykilatriði. Ef enginn er snjórinn taka styrktaræfingarnar við - lyftingar, hlaup, hjólatúrar eða fjallganga. Án líkamlegs sem andlegs styrks er ekki von til þess að árangur náist. Til þess að komast í fremstu röð þarf því gríðarlega mikla æfingu. Og Björgvin hefur til að bera þann kraft og vilja sem til þarf. Hann trúir á sjálfan sig, sem hefur vissulega mikið að segja, og fjöldi fólks sem til þekkir trúir því að strákurinn eigi eftir að ná þangað sem hann ætlar sér, á toppinn. Vilji er oft allt sem þarf - það eru gömul sannindi og ný. Stífar æfingar Björgvin æfði með Evrópu-cup liði Norðmanna sl. vetur og það gerir hann aftur í vetur. Þjálfararnir eru hins vegar sænskir, ljómandi góðir að mati Björgvins. "Ég er mjög ánægður með að æfa með Norðmönnunum, þetta er góður félagsskapur og metnaðurinn er mikill," segir Björgvin. Á undirbúningstímabilinu hefur Björgvin og félagar verið við æfingar á jöklum niður í Evrópu. Dagurinn er langur og strangur. "Við vöknum klukkan sex á morgnana og erum komnir upp á jökul klukkan sjö þar sem við hitum upp áður en sjálfar æfingarnar hefjast. Yfirleitt skíðum við til klukkan eitt. Þetta tekur á, því við erum að skíða í rúmlega þrjú þúsund metra hæð. Loftið er þunnt og langar æfingar við þessar aðstæður eru því erfiðar," segir Björgvin. "Ég æfi stundum þrisvar á dag. Auk þess að skíða er ég að lyfta og æfa þrekið." Kostnaður á fimmtu milljón króna Í ár fór Björgvin út til æfinga síðar en hann ætlaði, einfaldlega vegna fjárskorts. "Ég hefði þurft að fara út strax í júlí, en fjárhagsramminn leyfði það ekki. Þetta er gífurlega kostnaðarsamt, þrátt fyrir að æfinga- og keppnistímabilið verði styttra en æskilegt væri, má ætla að heildarkostnaður við æfingar, uppihald, ferðir o.fl. nemi á fimmtu milljón króna í vetur. Til þessa hefur þetta verið mér mögulegt vegna þess að foreldrar mínir hafa greitt götu mína fjárhagslega. Það eru hins vegar takmörk fyrir því hversu djúpt hægt er að fara í vasa pabba og mömmu og því er það mér gífurlega mikils virði að fyrirtæki heima ætli að leggja mér lið og fyrir það er ég ólýsanlega þakklátur. Þessi stuðningur gerir mér kleift að halda áfram að byggja mig upp og stefna fram á við," segir Björgvin. Í stórum dráttum er kostnaður við "úthald" Björgvins í vetur áætlaður: Æfingagjöld september-mars 4.112.500 Ferðakostnaður Ísland-Noregur 200.000 Áætlaður kostnaður alls: 4.312.500 Innifalið í æfingagjöldum er eftirtalið: · Þjálfun samkvæmt æfingaáætlun Evrópuliðs Norðmanna. · Ferðir til og frá Osló vegna æfinga og keppnisferða sem tilheyra æfingaáætlun Evrópuliðs Norðmanna. · Gisting og uppihald á æfingatíma og í keppnisferðum. · Annar óskilgreindur kostnaður sem kann að falla til vegna breytinga á æfinga- og keppnisáætlun Evrópuliðs Norðmanna. Greiðslur fyrir æfingagjöld að upphæð 50.000 NOK - tæplega 600 þúsund krónur ísl. - þurfa að berast til Norðmanna fyrir 10. hvers mánaðar. Fjármögnunin Kostnaður við"rekstur" Björgvins í vetur er eftirfarandi: Skíðasamband Íslands og foreldrar Björgvins, þau Björgvin Þorleifur Gunnlaugsson og Hafdís Sigurbergsdóttir, tryggja til samans þrjár milljónir króna. Sú hálfa önnur milljón sem út af stendur til þess að ná endum saman hafa fyrirtæki og einstaklingar fjármagnað. Opnaður hefur verið reikningur í Sparisjóði Svarfdæla fyrir Björgvin nr 1177-05-403492 og hefur Jónas Pétursson, starfsmaður sjóðsins, tekið að sér að halda utan um þá fjármuni sem safnast Björgvini til stuðnings. Jónas annast innheimtu styrkja frá fyrirtækjum og sér um mánaðarlegar greiðslur úr sjóðnum sem fara til Skíðasambands Norðmanna 10. hvers mánaðar. Tel mig eiga mikið inni "Ég hef verið á skíðunum frá þriggja ára aldri og nú er ég 22 ára. Bestu skíðamenn heimsins í dag eru um þrítugt og því tel ég mig eiga mikið inni. Ég hef alveg frá því að ég var smágutti stefnt að því að ná eins langt í skíðaíþróttinni og ég mögulega get. Þá er ég ekki að tala um að vera númer 50 eða 100 á heimslistanum. Ég stefni á toppinn, ég er staðráðinn í því. Og ég væri búinn að setja skíðin upp á hillu ef ég teldi ekki raunhæft að ná á toppinn. Fyrir fjórum árum náði ég því marki að verða heimsmeistari unglinga í stórsvigi og þá sannaði ég fyrir sjálfum mér að það er allt hægt. Það er vissulega mikil samkeppni og þetta er harður heimur. Fjöldi skíðamanna keppir að sama marki og ég. En ég gæti alveg eins hitt á að ná alla leið á toppinn eins og hver annar," segir Björgvin og það er ákveðni í röddinni. Margir sigrar að baki Eins og áður segir hefur Björgvin Björgvinsson verið í skíðabrekkunum frá þriggja ára aldri, en fyrsti alvöru sigurinn vannst á Andrésar andar leikunum í Hlíðarfjalli þegar hann var níu ára gamall. Síðan hefur leiðin áfram legið upp á við. Hér fylgir listi um nokkur afrek hans undanfarin ár: Íslandsmeistari í risasvigi karla árið 1998. Íslandsmeistari karla í stórsvigi árið 2000. Íslandsmeistari karla í svigi, stórsvigi og alpatvíkeppni 2001. Íslandsmeistari í stórsvigi 2002. Á skíðamótum erlendis síðustu ár hefur Björgvin einnig náð mjög góðum árangri og þar ber helst að nefna: Heimsmeistari 16-18 ára unglinga í stórsvigi árið 1998. Árið 2001 tók hann meðal annars þátt í eftirtöldum mótum og stóð sig með prýði: Sigraði svigmót í Sundsvall í Svíþjóð og hlaut 25.46 FIS stig. Sigraði stórsvigsmót í Sollefteaa í Svíþjóð og uppskar 18.45 FIS stig. Varð í 8. sæti í svigi í Kirkerudbakken í Noregi og fékk 27.73 FIS stig. Varð í 14. sæti á mjög sterku móti í Wildschoenau í Austurríki og hlaut 28.11 FIS stig. Á síðasta keppnistímabili keppti Björgvin á fjölmörgum mótum, meðal annars eftirtöldum þar sem hann stóð sig með miklum sóma: Sigraði svigmót í Rukan í Noregi og fékk 24.82 FIS stig. Tók þátt í tveimur stórsvigsmótum í Bjorli í Noregi, hafnaði í fjórða og fimmta sæti og uppskar 33.50 og 36.54 FIS stig. Varð í 14. sæti í svigi á mjög sterku móti í Tesero-Pampeaga í Ítalíu og hlaut 31.63 FIS stig Björgvin náði einnig að krækja sér í sitt fyrsta evrópubikarstig á árinu en aðeins tveimur Íslendingum hefur tekist það á undan Björgvini. Síðastliðið vor var Björgvin kjörinn skíðamaður ársins á Íslandi, en það eru íþróttafréttamenn og ÍSÍ sem tilnefna. Leggur jafn mikla áherslu á svig og stórsvig Oft hefur verið sagt um Björgvin að hann sé fyrst og fremst stórsvigsmaður, en því neitar hann. "Nei, það myndi ég ekki segja. Ég legg jafn mikla rækt við bæði svig og stórsvig. Að vísu er ég aftar á heimslistanum í sviginu, ég er sem stendur númer 112 í stórsvigi en númer 199 í svigi. Í vetur stefni ég eindregið á að koma mér í 60-80 sæti á heimslistanum í báðum greinum," sagði Björgvin. Hann segist ekki hafa í hyggju að keppa í risasvigi eða bruni. Hins vegar æfi hann lítillega báðar þessar greinar til þess að ná "hraða í líkamann" fyrir svig og stórsvig. Björgvin er samningsbundinn skíðaframleiðandanum Rossignol, sem sér honum fyrir skíðum, bindingum og skóm í vetur. Feti Björgvin sig drjúgt upp heimslistann í vetur á hann von á bónusgreiðslum frá Rossignol. Að öðru leyti er ekki um fjárhagslega fyrirgreiðslu að ræða erlendis frá. Skíðasamband Íslands styrkir Björgvin fjárhagslega í vetur, að ógleymdum stuðningnum frá fjölskyldunni og styrktaraðilum á Dalvík. Forsvarsmenn Skíðafélags Dalvíkur hafa öðrum fremur staðið fyrir því að mynda bakvarðasveit Björgvins og kann hann þeim sérstakar þakkir fyrir það. "Ég met þennan stuðning mikils. Ég vænti þess að geta orðið minni heimabyggð og landinu til sóma og komið því á kortið," segir Björgvin. Til æfinga í Austurríki Á næstu vikum verður Björgvin á ferð og flugi. Í þessari viku liggur leiðin til Austurríkis þar sem Björgvin verður með norska Evrópu-cup liðinu við æfingar. Björgvin viðurkennir að tíð ferðalög milli æfinga- og keppnisstaða sé þreytandi, en ekki sé um annað að ræða ef árangur á að nást. "Við erum sex í Evrópu-cup liði Norðmanna. Ég tel mig standa vel að vígi miðað við kollega mína í liðinu og við erum mjög svipaðir í hraða í tímatökum á æfingum," segir Björgvin. Í vetur eru fjölmörg mót á dagskrá í evrópsku mótaröðinni. "Fyrstu mótin eru í Finnlandi í lok nóvember. Síðan rekur hvert mótið annað. Ég gæti trúað því að ég komi til með að taka þátt í 40-50 mótum í vetur, sem eru þó töluvert færri mót en undanfarin ár. Ég hef þurft að taka þátt í mörgum mótum til þess að bæta punktastöðu mína, en núna er ég komin í þá stöðu að geta valið um mót. Veikari mótin hjálpa mér ekki lengur með punktastöðu," segir Björgvin. Hann svarar því játandi að góður möguleiki sé á að hann taki þátt í heimsbikarmótum í vetur. "Ef ég skíða vel á næstu vikum er alveg eins víst að ég taki þátt í fyrsta heimsbikarmótinu í stórsvigi, það er þó fyrst og fremst ákvörðun Skíðasambandsins," bætir hann við. Sjálfstraust og keppnisskap Margt þarf að prýða góðan skíðamann. Eitt af því er keppnisskap, að ekki sé talað um sjálfstraust. "Já, það er alveg rétt að ég hef alltaf haft sjálfstraust. Ef ég hefði ekki haft það væri ég þó ekki búinn að ná þetta langt. Ég hef komist langt á sjálfstraustinu og keppnisskapinu," segir Björgvin, en oft hefur verið haft á orði að hann taki mikla áhættu í brekkunum, hjá honum komist í raun ekkert annað að en "allt eða ekkert". "Það þýðir ekkert að gefa eftir. Maður verður að taka áhættu, en jafnframt að vera yfirvegaður og láta skynsemina ráða," segir Björgvin Björgvinsson.