Björn Þór og synir í eldlínunni

"Já, það er rétt að ég hef hug á því að taka þátt í 10 km göngunni með frjálsri aðferð nk. föstudag," segir Björn Þór Ólafsson, skíðafrömuður í Ólafsfirði og einn stjórnarmanna í mótsstjórn Skíðamóts Íslands. "Við feðgarnir yrðum þá allir með á þessu móti, sem hefur ekki gerst síðan 1999 á Ísafirði," segir Björn Þór. Eins og komið hefur fram mun Kristinn Björnsson ljúka sínum ferli á Skíðamóti Íslands um næstu helgi. Eins og dagskráin gerði ráð fyrir átti svigkeppnin að fara fram í Ólafsfirði, en vegna erfiðra aðstæðna var brugðið á það ráð að flytja svigið inn á Dalvík. Skemmtilegra hefði verið að Kristinn hefði getað endað ferilinn í brekkunni í Tindaöxl sem ól hann upp sem skíðamann, en veðurguðirnir hafa séð til þess að undanförnu að af því getur ekki orðið. Eldri bróðir Kristins, Ólafur, sem er íþróttakennari við Verkmenntaskólann á Akureyri og yfirþjálfari í skíðagöngu hjá Skíðafélagi Akureyrar, keppir einnig á landsmótinu um helgina í göngu - fyrir Ólafsfjörð. Þeir Ólafur og Kristinn og Björn Þór faðir þeirra verða því allir í eldlínunni um helgina á Skíðamóti Íslands.