06.09.2007
Stjórn Skíðafélags Dalvíkur hefur ákveðið að breyta rekstrartíma skíðasvæðisins á Dalvík. Í stað þess að leggja upp með rekstrartíma frá 1. janúar til 31. apríl þá verður rekstrartíminn frá 1. desember til 31. mars, eða fjórir mánuðir eins og tíðkast hefur.
Hingað til hefur verið litið á opnun fyrir áramót bónus við rekstur svæðisins en þessu ætlum við að snúa við og hafa bónusinn að vori ef aðstæður leyfa, eða jafnvel í nóvember. Við teljum að þessi ráðstöðvun bæti rekstur skíðasvæðisins til mikilla muna og að þeir sem stunda æfingar hjá félaginu fái mun meira út úr vetrinum. Síðustu ár hefur apríl mánuður verið arfaslakur og oftast verið búið að loka svæðinu fyrstu dagana í mánuðinum. Þá er ljóst að lenging skíðavertíða á Íslandi verður að vera fram á við og munum við í framhaldinu á reynslu þessa tíma skoða alvarlega að hefja hefðbundin rekstur enn fyrr og þá á framleiddum snjó.
Hvað varðar mót sem fram fara í apríl, svo sem Andrésarleikar, þá verður að sjálfssögðu tryggt að þeir sem þangað fara komist á skíði hér ef aðstæður verða fyrir hendi. Sama gildir um páska sem verða í apríl, svæðið verður að sjálfsögðu opið þá helgi ef aðstæður verða fyrir hendi. Það er að sjálfsögðu snjókerfið sem gerir okkur þetta kleift en það er skemmst frá því að segja að hefðum við ekki haft það hér síðustu vertíð hefði svæðið aðeins verið opið í 10-15 daga í stað rúmlega 100.