Byrjað að keyra snjó í göngubrautina í Ólafsfirði

"Hér er tíu stiga hiti og sunnanþeyr," sagði Jón Árni Konráðsson í Ólafsfirði á fjórða tímanum í dag, en hann á sæti í mótsstjórn Skíðamóts Íslands. "Við erum þó byrjaðir að keyra snjó í göngubrautina hérna í miðbænum og setjum aukinn kraft í það á morgun. Það hefur ekkert breyst með það að við stefnum að því að göngukeppnin verði hér í Ólafsfirði, en vissulega geta veðurguðirnir sett strik í reikninginn með lengri göngurnar. Við höfum fengið vilyrði fyrir því að geta notað göngusvæðið í Hlíðarfjalli og ef til þess kynni að koma tækjum við ákvörðun um flutning á lengri vegalengdum inneftir með stuttum fyrirvara. Hins vegar sé ég ekkert í spilunum sem stoppar okkur í því að fyrsta keppnisgrein Skíðamóts Íslands, sprettgangan, fari fram hér í Ólafsfirði nk. fimmtudag. Svo sjáum við til með framhaldið. Við tökum einn dag fyrir í einu, um annað er ekki að ræða við þær sumaraðstæður sem við búum við núna," sagði Jón.