Dagný Linda Kristjánsdóttir keppir á Sænska meistaramótinu í Åre

Dagný Linda Kristjánsdóttir skíðakona frá Akureyri tekur þessa dagana þátt í Sænska meistaramótinu á sem fer fram í Are þar sem Heimsmeistaramótið var haldið fyrir um mánuði síðan. Í dag kepptu stúlkurnar í bruni og varð Dagný í 3. sæti 1,93 sekúndum á eftir sigurvegaranum hinni sænsku Nike Bent. Önnur varð Jessica Lindell Vikarby sem einnig er sænsk. Flestar sterkustu brunkonur Skandinavíu tóku þátt í bruninu í dag og árangur Dagnýar því nokkuð góður. Á morgun verður aftur keppt í bruni og í tvíkeppni og á föstudaginn verður keppt í risasvigi og tvíkeppni og mun Dagný verða þar á meðal keppenda. Dagný kemur svo heim til að keppa á Skíðamóti Íslands sem fram fer í Hlíðarfjalli 12.-15. apríl n.k. en þar á hún þrjá titla að verja frá fyrra ári.