28.12.2005
Dagný Linda Kristjánsdóttir, Akureyri, og Björgvin Björgvinsson, Dalvík, voru í dag útnefnd skíðakona og skíðamaður ársins 2005.
Björgvin er okkar reyndasti keppnismaður í alpagreinum í dag og hefur staðið sig með afbrigðum vel undanfarið ár. Á árinu hefur hann stokkið upp heimslistann og er í dag nr. 77 í svigi og nr. 137. í stórsvigi. Björgvin er Íslandsmeistari í svigi og tvíkeppni, náði 28.sæti á Heimsmeistaramótinu í svigi, og stóð uppi sem sigurvegari í Ástralíu og Nýja Sjálandsbikarnum í haust, fyrstur Íslendinga, þar sem hann sigraði stórsvigskeppnina og lenti í öðru sæti í svigkeppninni
Dagný Linda hefur unnið sig upp úr erfiðum meiðslum sem hún lenti í fyrir tæpum tveimur árum á hreint ótrúlegan hátt og æft af mikilli hörku í ár. Hún hóf keppni á nýjan leik í nóvember og sýndi strax að hún er okkar besta skíðakona. Eftir að hafa bætt sína bestu punkta í stórsvigi, og er þar með efst íslenskra kvenna á heimslista, hóf hún keppni í bruni og risasvigi í heimsbikarnum um miðjan desember. Dagný er eina skíðakonan sem hefur þegar unnið sér þátttökurétt á Ólympíuleikana í Tórínó í febrúar og verður þar verðugur fulltrúi Íslands.