Enginn skráði sig í stökkið

Eins og glöggir menn hafa ugglaust tekið eftir gerði dagskrá Skíðamóts Íslands ráð fyrir því að keppt yrði í skíðastökki á mótinu að þessu sinni. Það er þó ljóst að ekki kemur til þess að keppt verði í stökki einfaldlega vegna þess að enginn skíðastökkvari skráði sig til leiks. Björn Þór Ólafsson, leikstjóri norrænna greina Skíðamóts Íslands og margfaldur Íslandsmeistari í skíðastökki og norrænni tvíkeppni hér á árum áður, segir að menn hafi látið stökkið fljóta með í dagskrá mótsins til gamans. Björn Þór segir að menn hafi gert sér grein fyrir að sáralitlar eða engar líkur væru til þess að keppendur myndu skrá sig til leiks, enda hefði enginn æft skíðastökk hér á landi um árabil, hvorki í Ólafsfirði, höfuðvígi stökksins, eða annars staðar. "Það er mín tilfinning að það heyri sögunni til að keppt verði í skíðastökki á Skíðamóti Íslands," segir Björn Þór.