23.03.2008
Í dag var enn einn frábær dagur á skíðasvæðinu og voru fjölmargir á skíðum og nutu veðurblíðunnar. Boðið var upp á ferð með snjótroðaranum alveg upp undir brún á Böggvisstaðafjalli en þaðan gengu margir síðasta spölin á brúnina sem er snarbrött. Líklega hafa um 250 manns nýtt sér þessar ferðir. Búið var að troða brekku sem endaði alveg við brattann og lá niður í Stallabrekkuna og þaðan niður í Brekkusel og er líklega ein lengsta skíðabrekka sem er í boði á landinu í dag. Fyrir nokkuð mörgum árum störtuðum við risasvigsmóti á þessum stað. Á myndasíðunni eru myndir sem teknar voru í dag upp á brún Böggvisstaðafjalls og þar sem troðarinn hætti að draga. Á morgun koma fleiri myndir inn frá deginum í dag.