31.03.2002
Keppni í svigi og stórsvigi á Skíðamóti Íslands verður jafnframt alþjóðleg FIS-mót. Nú liggur fyrir að átján erlendir keppendur mæta til leiks og kemur fram á vef Skíðasambandsins í dag að þar af sé einn frá Ástralíu, einn frá Belgíu, einn frá Bretlandi, fjórir frá Ísrael, fimm frá Noregi og sex frá Hollandi.
FIS-mótaröðin í alpagreinum ber nafnið Icelandair Cup og hefst hún í Bláfjöllum á morgun, annan dag páska, þegar keppt verður í svigi karla og kvenna. Flestir erlendu keppendanna komu til landsins í dag, páskadag, nokkrir eru þegar komnir og von er á tveimur boðskeppendum frá Noregi á þriðjudag.
Á vef Skíðasambands Íslands - www.ski.is - kemur eftirfarandi fram í dag:
"Skíðasamband Íslands hefur boðið hingað til lands nokkrum sterkum erlendum keppendum og verður styrkleiki mótanna ágætur. Fyrstan ber að nefna norska heimsbikarliðsmanninn Lasse Paulsen sem er í 56. sæti heimslistans í stórsvigi með 14.03 FIS-stig. Paulsen sem fæddur er árið 1974 er einnig mjög góður hraðagreinamaður og er í 28. sæti heimslistans í risasvigi og í 60. sæti í bruni. Paulsen verður á meðal keppenda á stórsvigsmótunum á Akureyri 4. apríl og á Skíðamóti Íslands 5. apríl á Dalvík. Jonathon Brauer frá Ástralíu mun keppa á öllum alþjóðlegu mótunum, en hann kom til landsins fyrir skömmu. Brauer er í 86. sæti heimslistans með 16.52 FIS- stig í svigi og með 30.28 FIS- stig í stórsvigi. Kai Are Fossland frá Noregi er líkt og Paulsen væntanlegur til landsins á þriðjudag en hann mun keppa í stórsvigi á Akureyri 4. apríl og stórsvigi og svigi á Skíðamóti Íslands. Fossland kom einnig hingað til lands í fyrra en hann er í 110. sæti heimslistans með 19.40 FIS- stig í svigi og í 128. sæti heimslistans í stórsvigi með 28.00 FIS-stig. Þá mun Jarl Rune Kjæmperud frá Noregi einnig keppa í öllum mótunum en hann er með 24.38 FIS-stig í stórsvigi og 26.39 FIS-stig í svigi. Þess má geta að Fossland og Kjæmperud eru báðir í norska Evrópubikarliðinu sem Björgvin Björgvinsson hefur æft með í vetur.
Tvær stúlkur úr norska Evrópubikarliðinu eru komnar til landsins til að taka þátt í öllum mótum Icelandair Cup mótaraðarinnar. Þetta eru þær Lisa Bremseth en hún er í 63. sæti heimslistans í svigi með 16.90 FIS-stig og í 117. sæti heimslistans í stórsvigi með 23.98 og Pia Rivelsrud sem er í 99. sæti heimslistans með 22.90 FIS- stig í svigi og með 42.89 FIS- stig í stórsvigi.