Fis mót miðvikudag og fimmtudag

Árangur hjá okkar fólki í svigi í gær, miðvikudag var eftirfarandi: Björgvin Björgvinsson varð í 3. sæti á eftir Ivica Kostelic og Magnusi Anderson. Kristinn Ingi Valsson og Þorsteinn Helgi Valsson luku ekki keppni. Hjá stúlkum náði Sóley Inga Guðbjörnsdóttir góðum árangri en hún náði 7. sæti. Anna Margrét Bjarnadóttir og Þorbjörg Viðarsdóttir luku ekki keppni en það setti svip sinn á keppnina hversu fáir komust klakklaust báðar ferðir, í karlaflokki 25 af 40 en aðeins 13 keppendur af 30 luku keppni í kvennaflokki. Í dag fimmtudag fór fram stórsvigsmót. Byrjað var snemma eða klukkan átta til að freista þess að ljúka mótinu áður en vindur færi að bæra á sér. Í byrjun moksnjóaði en veður var stillt og skyggni batnaði stöðugt þegar leið á fyrri ferð kvenna og var orðið gott í fyrri ferð piltanna. Þó fór vindur að bæra á sér og áður en seinni ferð var farin var orðið verulega hvasst, startið og tímatökutækin fuku og keppendur forðuðu sér inn og var mótinu fyrst frestað um klukkustund meðan menn réðu ráðum sínum. Það var síðan ákveðið að slá mótið af og keppa tvö stórsvig á morgun í staðinn. Það var sterkur vindur í bakið niður í skíðahótel en þar mældist vindur um 25 m/sek. við brottför. BG