04.04.2002
Hvert sæti var skipað í Dalvíkurkirkju í kvöld þegar Skíðamót Íslands var sett við hátíðlega athöfn. Ávörp við setninguna fluttu Sigríður Gunnarsdóttir, formaður Skíðafélags Ólafsfjarðar, séra Magnús Gamalíel Gunnarsson, sóknarprestur í Dalvíkurbyggð, Ásgeir Logi Ásgeirsson, bæjarstjóri í Ólafsfirði og loks Egill T. Jóhannsson, formaður Skíðasambands Íslands, en hann lýsti mótið sett.
Ungt tónlistarfólk úr Dalvíkurbyggð og Ólafsfirði flutti tónlistaratriði við setninguna.
Eins og áður segir var fjölmenni við setningu Skíðalandsmótsins og var ánægjulegt að sjá jafnt fararstjóra, keppendur og þjálfara mæta þar sem og fjölda fólks frá Dalvík og Ólafsfirði.
Í ávarpi sínu gat Egill formaður Skíðasambandsins sérstaklega um þátt Kristins Björnssonar, skíðamanns frá Ólafsfirði, í eflingu skíðaíþróttarinnar hér á landi á undanförnum árum. Egill sagði vel við hæfi að Kristinn renndi sér niður brekkurnar á sínu síðasta stórmóti á Skíðamóti Íslands, sem haldið sé í samvinnu Ólafsfirðinga og Dalvíkinga. Egill þakkaði mótshöldurum fyrir þá miklu vinnu sem þeir hefðu lagt á sig við undirbúning mótsins og kvaðst hlakka til komandi mótsdaga. Veðurguðirnir hefðu ekki verið mönnum hagstæðir, en ljóst væri að menn ætluðu að leggja mikið á sig til þess að mótið gæti gengið vel fyrir sig. Fyrir það bæri að þakka sérstaklega.