22.10.2006
Verkefni sumarsins fólust aðallega í því að fínpússa fjallið eftir framkvæmdirnar við snjókerfið en það var það eina sem okkur tókst ekki að klára þegar kerfið var sett upp. Allt annað kláraðist við kerfið sem virkaði 100% og bíðum við nú bara eftir fyrsta frosti til þess að geta haldið áfram þar sem frá var horfið 20 mars sl. en þá var síðasti snjórinn framleiddur.
Harpa Rut Heimisdóttir sá um sumaræfingar hjá elstu krökkunum sem tókust mjög vel og í framhaldi af þeim hefur Jóhann Bjarnason séð um haustæfingar sem verða fram að fyrstu opnun sem verður vonandi fyrstu dagana í nóvember.
Eins og undanfarin ár sá Skíðafélagið um eina grillstöð á fiskidaginn mikla. Þar sem alltaf er gott veður þann dag ákváðum við í samstarfi við fiskidagsnefndina að grípa í taumana og framkalla rigningu. Við fórum með tvær snjóbyssur niður á höfn og höfðum aðra þeirra til sýnis í grillbásnum en hina settum við í gang með hjálp dælubíls slökkviliðsins á Dalvík. Byssan var í gangi af og til og vakti mikla lukku viðstaddra en ætla má að um 33.000 manns hafi orðið vitni af þessum uppátæki. Leikflokkurinn Sýnir var síðan með regndans og spilaði um leið á tómar tunnur við mikinn fögnuð viðstaddra. Á myndasíðunni eru myndir af vatnsbaðinu. Til gaman má geta þess að einn gestur fiskidagsins kom að máli við formann Skíðafélagsins og spurði hvort þetta væri ný græja. Svaraði hann því játandi en þá spurði viðkomandi hvort einhver not væru fyrir slíkar græjur. Formaðurinn hélt það nú og sagði að sl. vetur hefði þetta verið notað töluvert og virkaði mjög vel. Undrandi á svipinn spurði þá maðurinn hvort virkilega væru svona margir brunar hér á Dalvík. Hann hélt að hér væri um nýja gerð af slökkvibúnaði að ræða. Þegar hann fékk síðan sannleikan horfði undrandi á vatnsstrókinn og gekk í burtu undrandi á svipinn.