Frábærar aðstæður í Böggvisstaðafjalli

Í dag eru frábærarar aðstæður á keppnisstað hér í Böggvisstaðafjalli við Dalvík, glampandi sólskin og fjögurra gráðu hiti. Keppni í svigi karla hefst kl. 11 eins og ákveðið var síðdegis í gær. Brautarstarfsmenn voru að vonast til þess að með frestun svigsins um tvær klukkustundir, frá kl. 9 í morgun, eins og upphaflega var gert ráð fyrir, og til kl. 11 myndi koma eilítil sólbráð sem unnt yrði að frysta strax. Þessar vonir ætla að rætast og því stefnir í að brautin verði afburða góð. Þátttakendur í svigi karla í dag verða þeir sömu og í gær, en við bætist Kristinn Björnsson frá ólafsfirði, en eins og komið hefur fram er þetta væntanlega síðasta stórmót Kristins.