Framkvæmdir við Stórhólstjörnina hefjast á mánudag.

Eins og áður hefur verið sagt frá hér á síðunni verður vatnið í snjóframleiðsluna tekið úr Stórhólstjörninni sem er 220 metra frá skíðaskálanum Brekkuseli. Tjörnin hefur verið þarna í áratugi en hún myndast þegar snjóa fer að leysa á vorin. Fyrir nokkrum árum var gerður skurður að henni úr Brimnesánni sem er í um 500 metra fjarlægð frá skíðasvæðinu og síðustu ár hefur runnið í tjörnina yfir sumarið og fram á haust. Flatarmál tjarnarinnar er um 7540 fermetrar og samkvæmt dýptarmælingum er hún um 95 sentimetra á dýpt, að meðaltali. Vatnsmagnið í tjörninni er því um 7163 rúmmetrar. Ef gert er ráð fyrir því að nýta megi 50 cm af dýpi tjarnarinnar til snjóframleiðslu þá er nýtanlegt vatnsmagn hennar um 3580 m3. Til þess að tryggja að nægjanlegt vatn verði í tjörninni til snjóframleiðslunnar verður að renna í hana allan ársins hring. Í framhaldi af útreikningum hér að ofan var mælt innrennsli í tjörnina úr Brimnesáni og mælist innrennslið í tjörnina 117m3/klst. Augljóst er að forsenda þess að Stórhólstjörnin nýtist sem vatnsöflun fyrir snjóframleiðsluna er að tryggja öruggt innrennsli í hana úr Brimnesánni. Reynslan frá því fyrir tólf árum þegar snjókerfið var prufað hér er sú dýpka þarf svæðið þar sem dælan verður staðsett en þar þarf einnig að koma fyrir brunni fyrir fæðudæluna. Stefnt er að því að tæma tjörnina til þess að auðvelda vinnu við hana og setja í leiðinni yfirfall til að tryggja að hún flæði ekki yfir bakka sína ef frárennslið úr henni lokast. Það er mikill kostur að geta tekið vatnið úr tjörninni þar sem hún er algerlega gerð af náttúrunnar hendi því mjög mikið rask hefði orðið á svæðinu ef gera hefði þurft uppistöðulón til að taka vatnið úr. Kostnaður við gerð uppistöðulóns og lagna að því hefði orðið margar miljónir. Skoða má loftmynd af tjörninni á myndasíðunni. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við tjörnina á mánudaginn og ljúka þeim á viku en þá verður hafist handa við að grafa fyrir vatns og raflögnum og ætlum við að ljúka þeim hluta verksins um miðjan oktober og síðan öllu verkinu í lok mánaðarins. Samhliða öðrum framkvæmdum verður RARIK að vinna við breytingar á heimtöginni að svæðinu þar sem orkuþörfin til okkar nær fjórfaldast en þegar kerfið verður í gangi á fullum afköstum tekur það um 260 kw á klst. Við þurfum því að hafa aðgang að allt að 400 kw fyrir allt skíðasvæðið. Þess má geta að dælan tekur rúm 200 kw og dælir 45 kílóa þrystingi sem dugar til að dæla vatni upp fyrir efri lyftuna sem er tæpum 300 metrum ofar en staðsetning dælunnar. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir með pompi og prakt þegar búið er að laga til í tjörninni, nánar um það síðar meðal annars hér á síðunni. Þá styttist óðum í að við gefum út fyrstu áætlanir um opnun svæðisins en öruggt er að við stefnum að sjálfsögðu að á að verða fyrsta skíðasvæði landsins sem opnar í haust eins og hefur reyndar verið síðustu ár. Hvort það verður á gerfisnjó kemur í ljós síðar.