Frétt af heimasíðu SKI.

Blaðamannafundur SKÍ - 15. júlí 2005 19.7.2005 Niðurstaða fundar Eysteinn Þórðarson Tilefni fundarins var heimsókn Eysteins Þórðarsonar og eiginkonu hans, Pamela Thordarson, til landsins en þau eru búsett í Bandaríkjunum. Pamela hefur ákveðið að stuðla að því að orðspor Eysteins í skíðabrekkunum gleymast ekki með því að gefa Skíðasambandi Íslands farandbikar ásamt veglegri peningagjöf til handa þeim skíðamanni sem hlýtur Eysteinsbikarinn, en hann verður afhentur árlega í lok skíðavertíðar. Eystein Þórðarson þarf vart að kynna fyrir íslendingum en hann er fæddur á Ólafsfirði árið 1934. 18 ára gamall, eða árið 1952 flytur hann til Reykjavíkur og hefur keppni fyrir hönd skíðadeildar ÍR. Eysteinn varð margfaldur íslandsmeistari í alpagreinum og m.a. varð Eysteinn 5-faldur íslandsmeistari á Ísafirði árið 1956 þegar hann vann allar greinar alpagreina og einnig varð hann íslandsmeistari í stökki. Þetta hefur ekki verið leikið eftir, hvorki fyrr né síðar. Eysteinn keppti fyrir hönd Íslands á tvennum Ólympíuleikum. Það voru árin 1956 í Cortina og 1960 í Squaw Valley í Bandaríkjunum. Í Squaw Valley náði Eysteinn besta árangri sem íslendingur hefur náð á vetrarólympíuleikum er hann varð í 12 sæti samanlegt í þremur greinum, þ.e. svig, stórsvi og bruni. Þá náði hann næstbesta árangri í einstakri grein en Eysteinn varð 17. í svigi. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart þegar ég segi að Eysteinn er í hópi okkar fræknustu skíðamanna landsins fyrr og síðar. Nú ætlar Pamela Thordarson, eiginkona Eysteins að segja nokkuð orð. Þýtt frá frásögn Pamelu: Mig langar að gefa Skíðasambandi Íslands þennan farandbikar sem ber nafn eiginmanns míns, Eysteins bikarinn. Um þennan bikar verður keppt árlega og hann hlýtur sá skíðamaður sem nær besta árangri vetrarins í alpagreinum karla. Ásamt því að fá afhendan Eysteinsbikarinn til vörslu í ár, fær viðkomandi skíðamaður $1.000,- (Eittþúsund Dollara) í peningaverðlaun sem styrk til niðurgreiðslu á æfingakostnaði sínum. Með þessu vonast ég til að afrek eiginmanns míns í skíðabrekkunum, bæði hér á Íslandi og á erlendri grund verði íslendingum í fersku minni um ókomin ár. Takk fyrir. Þakkir frá SKÍ Ég vil fyrir hönd Skíðasambands Íslands þakka fyrir þessa góðu gjöf og þann mikla hug sem Pamela sýnir skíðahreyfingunni. Þetta er okkur mikil hvatning og sérstaklega er þetta hvatning til skíðamannanna sem keppa nú árlega um þann heiður að fá afhentan Eysteinsbikarinn og $1.000 peningaverðlaun. Skíðasamband Íslands mun á næstu vikum setja saman þær reglur sem munu gilda fyrir Eysteinsbikarinn og vonar að hann muni efla enn frekar og styrkja skíðamenn okkar til afreka. Takk fyrir, Friðrik Einarsson, formaður SKÍ