Fréttaritarar skidalvik.is komnir úr sumarfríi.

Ýmislegt hefur verið í gangi hjá félaginu síðan skíðavertíðinni lauk í vor og verður sagt frá því helsta hér. Áður en farið verður yfir starf félagsins þá er okkur mikil ánægja að segja frá því að á ársþingi Ungmennasambands Eyjafjarðar sem haldið var á Þelamörk í apríl fékk Skíðafélag Dalvíkur félagsmálabikar UMSE fyrir síðasta starfsár. Bikarinn er veittur því félagi sem þykir skara fram úr í félagsstarfi á hverju starfsári. Þá veitir UMSE einnig þeim einstaklingi sem þykir hafa sýnt mikinn dugnað og vinnusemi viðurkenningu fyrir störf sín í þágu félags síns. Bikarinn heitir Vinnuþjarkur og fékk Óskar Óskarsson formaður Skíðafélags Dalvíkur bikarinn fyrir störf sín á síðasta ári. Björgvin Björgvinsson var síðan kosinn íþróttamaður UMSE. Í lokahófi Skíðafélags Dalvíkur sem fór fram 29. apríl fengu elstu krakkarnir viðurkenningar fyrir árangur vetrarins og tók Krister ákvörðun um það ásamt alpagreinanefnd hverjir fengu viðurkenningar. Framfarabikarinn í ár fékk Anna Margrét Bjarnadóttir. Anna Margrét fór hægt af stað í mótum ársins en bætti sig verulega er á leið. Hennar besti árangur var annað sætið í stórsvigi á Siglufirði og hún endaði í 7 sæti í stigakeppni 13-14 ára stúlkna. Dugnaðarbikar: Dugnaðarbikarinn í ár hlaut Þorsteinn Helgi Valsson. Þorsteinn hefur stundað íþrótt sína af einurð og elju í vetur líkt og undanfarna vetur og er bikar þessi hvatning til hans að halda áfram á sömu braut. Óvæntasta afrekið: Bikar fyrir óvæntasta afrekið í ár hlaut Unnar Sveinbjörnsson. Unnar náði 2 sæti í 13 ára flokki á Andrésar Andarleikunum í stórsvigi en var þar jafnframt í 6. sæti í 13-14 ára flokki og fékk fyrir það 40 stig. Unnar varð í 11 sæti í stigakeppni 13-14 ára drengja sem telst góður árangur fyrir keppanda á yngra ári. Ástundunarbikarinn: Ástundunarbikarinn í ár hlaut Þorbjörg Viðarsdóttir. Þorbjörg hefur sýndi afburðargóða ástundun á íþrótt sinni í vetur. Þorbjörg hefur einnig verið áhugasöm á æfingum og verið öðrum iðkendum til fyrirmyndar hvað það varðar. Afreksbikarinn: Afreksbikarinn í ár hlaut Björgvin Björgvinsson. Björgvin hóf keppnistímabilið með látum og varð álfumeistari í stórsvigi. Hann var einnig einn af þátttakendum Íslands á Ólympíuleikunum í Tórinó í ár og hafnaði þar í 22 sæti í svigi sem er einn besti árangur íslensks alpagreinakeppenda á Ólympíuleikum. Björgvin varð auk þess tvöfaldur Íslandsmeistari í alpagreinum.