Fréttir af Jakobi Helga

Jakob Helgi Bjarnason, landsliðsmaður sem keppir fyrir Skíðafélag Dalvíkur, er nú við æfingar á Hintertuxjöklinum í Austurríki og hefur verið þar síðan 13.nóvember. Hann kemur til Íslands 27.nóvember og þá taka við próf í Verslunarskólanum þar sem hann stundar nú nám. Þann 13.desember fer hann aftur til Austurríkis og verður þar fram undir jól við æfingar og keppni. Jakob Helgi stefnir að því að vera á Dalvík á milli jóla og nýárs við æfingar og kemur til með að vera með á FIS mótum sem ráðgerð eru á Akureyri dagana 28.-29.desember. Dagana 13.-22.janúar verður hann á Ólympíuleikum unglinga í Innsbruck í Austurríki en þetta mun vera í fyrsta skiptið sem slíkir Ólympíuleikar eru haldnir. Fyrr í haust var Jakob Helgi með íslenska landsliðinu við æfingar á Stelvio jöklinum á Ítalíu í 10 daga. Hann meiddist eftir að hann kom heim og varð því af ferð með landsliðinu til Mölltal jökulsins í Austurríki sem var í október. Jakob hefur hins vegar náð sér vel af meiðslum og er kominn á fleigi ferð við æfingar.