21.09.2003
Á morgun halda Björgvin Björgvinsson og Skafti Brynjólfsson á fyrstu skíðaæfinguna. Ferðinni er heitið til Austurríkis og munu þeir verða við æfingar á Hintertux í sex daga með Jame Dunlop þjálfara íslenska landsliðsins.
Björgvin er í landsliðinu en Skafta gafst kostur á að æfa með liðinu í vetur sem hann þáði með þökkum. Landsliðið verður staðsett í Lillehammer og það munu þeir dvelja í vetur ásamt þjálfaranum og Sindra Pálssyni úr Breiðablik.
Kristinn Ingi Valsson er í skíðamenntaskólanum í Oppdal í Noregi en hann hélt utan um miðjan ágúst. Kristinn Ingi er í landsliðinu eins og Björgvin og vonumst við til að veturinn í vetur verði honum léttari en sá síðasti en hann var með ólíkindum óheppinn með meiðsli og veikindi og segja má að hann hann hafi verið meira og minna meiddur og veikur allan veturinn. Dandi lét þó ekki deigan síga barðist eins og ljón við mótlætið og var komin á góða siglingu í vor þegar vertíðinni lauk og hefur hann fullan hug á að sýna sitt rétta andlit í vetur.
Þau Snorri Páll Guðbjörnsson, Íris Daníelsdóttir og Kári Brynjólfsson eru í skólum á Akureyri og verða við æfingar hjá Skíðafélagi Akureyrar í vetur. Þar á bæ eru æfingar hafnar á fullu og metnaður mikill eins og sýndi sig og sannaði síðast liðinn vetur þegar aðilar úr afreksliði þeirra mokuðu til sín verðlaunum á mótum vetrarins.