Gamlir skiðamenn taka fram skíðin fyrir Skíðamót Íslands.

Nokkrir af gömlum skíðamönnum úr Skíðafélagi Dalvíkur hafa ákveðið að keppa á Skíðamóti Íslands sem haldið er á Dalvík og á Ólafsfirði í vetur. Ástæðan er 30 ára afmæli Skíðafélags Dalvíkur. Nokkrir þeirra voru í æfingabúðum hér á Dalvík um jólin og mættu þeir á allavega eina æfingu yfir hátíðirnar. Það er ljóst þegar þessi hópur kemur saman þá sést vel hvað félagið hefur átt marga menn og konur í fremstu víglínu mörg síðustu ár. Sumir þeirra eru í góðri æfingu en aðrir þurfa að taka sig verulega á segir Jóhann Bjarnason sem hefur veg og vanda að undirbúningi kappana. Einn úr hópnum Gunnþór Gunnþórsson átti ekki heimagengt í æfingarbúðirnar yfir jólin því hann var staddur í Namibíu. Í skeyti frá honum rétt fyrir jólin sagði hann þjálfaranum að ekki þyrfti að óttast um hans form þar sem hann væri við æfingar hjá namibíska landsliðinu sem æfði á fullu fyrir Ólyimpíuleikana í Salt Lake City. Ekki hefur fengist staðfest í hvaða grein Namibíumenn keppa á leikunum og þá hvaða grein Gunnþór æfði yfir hátíðirnar.