24.08.2005
Nýr þjálfari ráðinn fyrir Dagnýju Lindu.
Gengið hefur verið frá ráðningu nýs þjálfara fyrir Dagnýju Lindu Kristjánsdóttur, landsliðskonu á skíðum, sem er ein þriggja íslenskra skíðamanna sem Visa Europe styrkir til þátttöku á Vetrarólympíuleikunum í Tórínó árið 2006. Nýji þjálfarinn heitir Dejan Poljansek og er rúmlega fertugur Slóveni sem hefur yfir 25 ára reynslu sem þjálfari. Dagný Linda æfir nú af kappi fyrir Vetrarólympíuleikana en hún hefur nú þegar tryggt sér sæti á leikunum þrátt fyrir að hafa glímt við hnémeiðsl að undanförnu.
Fyrr á þessu ári var Dagný Linda valin ein af ,,Vonarstjörnum Visa" og komst þar með í hóp 60 efnilegra ungmenna frá Evrópu sem hljóta styrk frá Visa Europe til að taka þátt í Vetrarólympíuleikunum á næsta ári. Styrkurinn felur meðal í sér að skíðafólkið fær að njóta handleiðslu reyndra Ólympíumeistara fram að leikum.
Dejan Pljansek hefur þjálfað Heimsbikar- og Evrópubikarlið Slóvena í bæði karla og kvennaflokki frá árinu 1986. Einnig þjálfaði hann hinn heimsþekkta skíðamann Jure Kosir sem vann tvö gullverðlaun og ein bronsverðlaun í Heimsbikarnum veturinn 1998-1999. Poljansek, hefur þar að auki þjálfað aðra skíðamenn sem hafa náð efstu sætum í Heimsbikarnum.
Dagný Linda er ein reyndasta skíðakona landsins. Hún hefur unnið á þriðja tug gullverðlauna á íslenskum skíðamótum og þar af orðið Íslandsmeistari sjö sinnum, tvisvar keppt á Heimsmeistaramóti, tvisvar í Heimsbikarnum ásamt því að hafa keppt á Vetrarólympíuleikunum árið 2002.