Góður árangur á Andres.

Þátttakendur Skíðafélags Dalvíkur á nýliðnum Andresar Andarleikum voru 76 talsins og hafa ekki verið fleiri í mörg ár. Við vorum með þriðja fjölmennasta liðið á leikunum, alla í alpagreinum og unnum til 36 verðlauna. Þetta er frábær árangur hjá krökkunum og ljóst að þjálfarar félagsins eru að vinna mjög gott starf en þeir eru Björgvin Hjörleifsson, Snæþór Arnþórsson og Gunnlaugur Haraldsson. Þá er ljóst að snjókerfið hefur gert gæfu munin og öruggt að við hefðum ekki getað haft svæðið opið í 110 daga án þess. Skíðasvæðið var opnað 16. nóvember 2006 og hófust æfingar samkvæmt æfingatöflu 1. desember. 29. mars sl, var síðan síðasta skíðaæfingin í Böggvisstaðafjalli en þá var komin 18 stiga hiti og mikill vindur sem gerði það að verkun að snjórinn hvarf nánast á þremur dögum.