Góður árangur á Unglingameistaramóti Íslands

Dagana 19. - 21. apríl fór fram Unglingameistaramót Íslands í Hlíðarfjalli. Keppt var í flokkum 12-15 ára unglinga og fór vösk sveit frá Skíðafélagi Dalvíkur á mótið. Eins og svo oft áður stóðu okkar krakkar sig frábærlega og eru félaginu til mikils sóma. Keppa átti í svigi, stórsvigi og samhliðasvigi en vegna aðstæðna á laugardeginum þurfti að fella niður samhliðasvigið og því einungis keppt í hinum tveimur greinunum og svo alpatvíkeppni sem er samanlagður árangur úr svigi og stórsvigi. Okkar krakkar komu heim með 8 Íslandsmeistaratitla frá mótinu ásamt fjölda verðlaunapeninga. Í flokki 12 ára drengja varð Magnús Rozzasa 3. í svigi, stórsvigi og alpatvíkeppni. í flokki 13 ára drengja sigraði Guðni Berg Einarsson í svigi og alpatvíkeppni og varð í öðru sæti í stórsviginu. Daði Hrannar Jónsson sigraði í stórsviginu og varð annar í sviginu og alpatvíkeppninni. Í flokki 13 ára stúlkna náði Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir öðru sæti í svigi og þriðja í alpatvíkeppni. Í flokki 14 ára drengja sigraði Helgi Halldórsson í svigi, stórsvigi og alpatvíkeppni og í flokki 15 ára drengja sigraði Axel Reyr Rúnarsson í stórsvigi. Aðrir keppendur Skíðafélags Dalvíkur stóðu sig einnig með mikilli prýði og ljóst að framtíðin er björt hjá félaginu. Úrslit mótsins má sjá á skidi.is Skíðafélagið óskar öllum þessum krökkum til hamingju með árangurinn og einnig þjálfara þeirra, Sveini Torfasyni.