09.03.2010
Jakob Helgi stóð sig feykilega vel á Topolinoleikunum á Ítalíu um síðustu helgi en það mót er talið eitt sterkasta mót í heiminum fyrir krakka í 13-14 ára flokki. Keppendur í flokki drengja 13-14 ára voru samtals 115 frá 44 þjóðlöndum.
Í svigi hafnaði Jakob í 7.sæti og var 43/100 úr sekúndu samanlagt frá því að komast í verðlaunasæti en aðeins eru gefin verðlaun fyrir 3 efstu sætin. Í stórsviginu hafnaði Jakob í 5.sæti og var þar líka stutt frá verðlaunasæti eða 56/100 úr sekúndu samanlagt.
Í svig keppninni hlekktist honum á í fyrri ferð og var í 11.sæti eftir fyrri en fékk 3 besta tímann í seinni ferð. Í stórsviginu var hann 4 eftir fyrri ferð en ítalskur strákur skaust upp fyrir hann í seinni ferð. Í stórsviginu stóð Jakob sig best af öllum Norðulandabúum en þarna voru 3 bestu strákarnir frá hverju af hinum Norðurlöndunum. Í sviginu var aðeins norðmaðurinn Martin Fjellberg á undan honum.
Jakob Helgi sýndi á þessu móti að hann er meðal bestu skíðamanna í heiminum á sínum aldri.
Hægt er að skoða úrslit frá mótinu á www.trofeotopolino.net