Góður dagur á enda, viðmiðunarmót á morgun.

Það var mikið um að vera á skíðasvæðinu í dag og kvöld. Klukkan 17.00 hófst 8 tíma byrjendakennsla og voru það um 20 börn sem mættu og voru flest þeirra að stíga á skíði í fyrsta sinn. Námskeiðið heldur síðan áfram á morgun og sunnudag. Í kvöld var síðan opið eins og áður hefur komið fram og mættu ríflega 200 manns á skíði í frábæru veðri og skíðafæri og fengu kakó og krínglur sem foreldrafélagið bauð upp á. Einhverjar myndir voru teknar og munum við setja þær inn fljótlega. Á morgun verður síðan skíðamót með nýstárlegu sniði. Fyrirkomulag mótsins verður á þann veg að börn keppa við foreldra sína og/eða gamlar skíðakempur úr bænum. Allir fara í sömu braut og verður tímataka þannig að foreldrar og börn sjái hvernig staða þeirra er innbyrðis. Mót þetta verður síðan endurtekið á vormánuðum og þá verður hægt að sjá hvorum hefur farið meira fram, barninu eða foreldrinu/skíðakempunni. Mótið hefst kl. 14:00 og stendur til kl. 16:00 en keppendum er frjálst að mæta einhverntíman á þessu tímabili og reyna með sér.