Göngubrautin fryst í Ólafsfirði?

Svo gæti farið að göngubrautin í Ólafsfirði verði fryst fyrir 10 km gönguna á morgun með frjálsri aðferð. Jón Árni Konráðsson, brautarstjóri, segir mikilvægt að brautin verði hörð og góð fyrir "skautið" og því hljóti menn að skoða það vel að frysta brautina fyrir keppnina. Menn hafa þó ekkert við að miða í þessu því eftir því sem næst verður komist hefur göngubraut aldrei verið fryst hér á landi áður. Til frystingar er notaður köfnunarefnisáburður, rétt eins og gert er í svigbrekkunum. Áburðinum er einfaldlega stráð yfir brautina og síðan jafnar troðarinn áburðinn út sem gengur í samband við snjókristalana og úr verður harðpakkaður snjór. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi!!