16.11.2002
Þann 11. nóvember síðastliðinn voru 30 ár liðin frá stofnun Skíðafélags Dalvíkur.
Það voru nokkrir framtakssamir aðilar hér á víkinni sem tóku sig saman með Jón Halldórsson í broddi fylkingar og stofnuðu félagið.
Eftir 30 ára öflugt starf er tilvalið að líta yfir farinn veg og rifja upp uppbyggingarsögu félagsins í máli og myndum og hefur vösk sveit félaga undirbúið afmælisveislu sem haldin verður í Brekkuseli í dag laugardaginn 16. nóvember frá kl. 14:00-17:00 og eru allir velunnarar félagsins boðnir velkomnir.
Boðið verður upp á kaffihlaðborð auk sýningar á gömlun og nýjum myndum sem gefa glögga mynd af uppbyggingu skíðasvæðisins og félagsins frá upphafi.
Félagar Skíðafélags Dalvíkur hafa unnið þrekvirki í uppbyggingu skíðasvæðisins í Böggvisstaðarfjalli síðastliðin 30 ár þó svo að oft hafi skipst á skin og skúrir en þrátt fyrir það hefur alltaf verið haldið áfram af fullum krafti. Nefna má byggingu skíðalyftna, byggingu Brekkusels, húsa til mótahalds og á síðasta ári var ný lýsing sett upp á skíðasvæðið sem leysti af hólmi lýsingu sem var úr sér gengin. Lýsing hafði aðeins verið á neðra svæðinu en nú eru upplýstar brekkur við báðar lyfturnar. Í samstarfi við Dalvíkurbyggð er nú farið að huga að áframhaldandi uppbyggingu.
Félagið hefur alla tíð séð um rekstur skíðasvæðisins og með því lagt til mikla sjálfboðavinnu en það heyrir nú sögunni til að félag reki skíðasvæði af þessari stærðargráðu hér á landi. Það er ljóst að að án stuðnuings bæjaryfirvalda sem alltaf hafa verið félaginu afar hliðholl væri ekki jafn gott skíðasvæði hér og raun ber vitni. Félagið hefur einnig átt stóran hóp annara styrktaraðila sem félagið hefur getað treyst á undanfarin ár. Sparisjóður Svarfdala hefur farið þar fremstur í flokki en af öðrum stórum styrktaraðilum má nefna Fiskmiðlun Norðurlands, KEA, Tréverk, Árfell, Sæplast, Samherja, Dalvíkurapotek, RARIK og ESSO svo nokkur séu nefnd.
Auk styrkja bæjaryfirvalda til reksturs og uppbyggingar svæðisins hefur félagið einnig fengið styrki til íþróttastarfs. Það má því segja að félagið gegni ákveðnu hlutverki í uppeldi og forvörnum fyrir börn og unglinga sem við gerum með því að bjóða börnum frá fimm ára aldri og upp úr skíðaæfingar yfir vetrarmánuðina. Það er löngu viðurkennt að fjárfesting í öflugu íþróttastarfi er lang besta forvörnin fyrir börn og unglinga.
Það eru að meðaltali 120 börn og unglingar sem stunda skíðaíþróttina af kappi árlega undir leiðsögn þjálfara og kennara en utan um barnastarfið heldur foreldrafélag sem sér um að skipuleggja ferðir og uppákomur fyrir börnin. Á hverju ári bætast svo margir þann hóp sem velja að vera á brettum og hér er orðin stór hópur sem stundar þá íþrótt. Það er óhætt að fullyrða að þetta öfluga barna- og unglingastarf félagsins hefur skilað sér og höfum við meðal annars eignast fjölmarga afreksmenn og konur á skíðum í gegn um árin og eru sumir þeirra að skila árangri á heimsmælikvarða.
Sjálfboðaliðastarf félaga í Skíðafélagi Dalvíkur eins og annarra félaga er gríðarlega mikið á hverju ári og skiptir það hundruðum eða jafnvel þúsundum tíma árlega sem félagar leggja á sig við ýmis störf sem tengjast rekstri svæðisins og félagsstarfi. Við búum svo vel hér í Dalvíkurbyggð að enn þá er þó nokkuð stór hópur sem leggur þessa vinnu á sig þó svo að þeim fækki að vísu sem hafa tíma til að sinna því. Nefna má að þegar hér hafa verið haldin stórmót s.s alþjóðleg mót, landsmót og bikarmót þurfum við á um 40 sjálfboðaliðum að halda og fram að þessu hefur tekist að manna þau. Þessi mót höldum við í samvinnu við Skíðafélag Ólafsfjarðar en síðustu ár hefur verið náið samstarf milli félaganna. .
Það er von okkar í forystu Skíðafélags Dalvíkur að okkur takist að þjóna bæjarbúum sem best um ókomin ár og veita sem besta þjónustu á skíðasvæðinu í Böggvisstaðafjalli.
Við hvetjum alla sem áhuga hafa á að starfa með félaginu að setja sig í samband við stjórnendur þess því öll aðstoð er vel þegin. Einnig vonumst við eftir því að sjá sem flesta bæjarbúa á skíðum í vetur því ekkert er betra en skella sér á skíði í hreinu fjallalofti á tóbakslausu skíðasvæðinu í Böggvisstaðarfjalli og ekki spillir fyrir að aðeins nokkuð hundruð metrar eru á svæðið frá bænum.
Skíðakveðja
Óskar Óskarsson formaður.