20.11.2002
Skíðafélag Dalvíkur hefur verið í samstarfi við Tóbaksvarnarnefnd undanfarin misseri og því var tilvalið að leita í smiðju Þorgríms Þráinssonar framkvæmdarstjóra nefndarinnar en hann er eins og margir vita með eimdæmum pennalipur maður. Þorgrímur fékk frjálsar hendur hvað efnistök varðar og hér kemur pistill hans.
Hlandlykt og höfrungadans!!
Dagur í lífi skíðalausa Reykvíkingsins undir handleiðslu ,,Gráa kattarins" á Dalvík.
Það er fremur fátítt að starfsmenn Tóbaksvarnanefndar þurfi áFJALLAhjálp eftir heimsóknir út fyrir höfuðborgina. Slíkt átti sér þó stað þegar Viðari Jenssyni var boðið að heimsækja Dalvík og Ólafsfjörð í boði mótsnefndar Skíðalandsmóts Íslands en Tóbaksvarnanefnd var einn af styrktaraðilum mótsins eins og heimsbyggðinni er kunnugt um. Hinn síglaði dalvíski skíðafrömuður Óskar Óskarsson hafði verið eins og grár köttur í húsakynnum Tóbaksvarnanefndar og neitaði að fara aftur heim fyrr en samkomulag um ,,tóbakslaust mót" væri orðið að veruleika. Hangsið í Óskari var heillaspor fyrir Dalvíkinga og Skíðasamband Íslands og framtak þeirra öðrum til eftirbreytni.
Já, Viðar fór í sakleysi sínu upp Fokker Friendship sem var ekkert sérlega vinarlegur að þessu sinni. Kappinn spennti á sig öryggisbeltið, tékkaði á björgunarvestinu og pantaði sér kaffi. ,,Flugmaðurinn sem talar" tók þá undarlegu ákvörðun að fljúga eftir þjóðveginum norður en elstu menn muna ekki eftir að það hafi verið gert áður. Hann flaug/ók eftir Langadalnum, niður Öxnadalinn eins og hann væri að leita að vini sínum eða úri sem hann hefði týnt. Síðan renndi hann sé síðan niður Hlíðarfjall og lenti heilu og höldnu á Akureyri. Okkar tóbakslausi maður smokraði sér úr björgunarvestinu áður en hann fór frá borði og stakk ælupokunum inn á sig.
Viðar tók þó gleði sína á ný þegar grái kötturinn frá Dalvík tók brosandi á móti honum og öðrum fulltrúum styrktaraðila Skíðalandsmótsins. Lítil og sæt rúta brunaði með mannskapinn á fleygiferð í gegnum Akureyrarbæ -- eins og hann væri ekki lengur höfuðstaður Norðurlands. Ekið var sem leið lá til Ólafsfjarðar en þar biðu sextán snjósleðar í gangi og var mönnum ekki til setunnar boðið. Þeim var skellt í snjógalla, hjálmur skyldi á hausinn og okkar maður var svo ,,heppinn" að lenda á sleða með gráa kettinum. Óskar kallar ekki allt ömmu sínu í snjósleðaakstri (frekar en pönnukökubakstri) því hann tróð bensínið í botn og reif sleðann (með Viðar í eftirdragi) upp fjallið. Okkar maður stakk fingrunum á kaf í ,,six-pakkinn" á Óskari, kom ekki upp orði af hræðslu, missti andann og hárkollan sneri öfugt. Þegar upp á topp var komið spurði Viðar hvort svo heppilega vildi til að einhver væri með auka nærbuxur og gallabuxur en svo var ekki. Hann var því að sætta sig við að hlandið frysi í brókunum. Yfirgefinn Héðinsfjörður blasti við handan fjallsins og útsýni austur til Parísar og langt suður yfir Kínamúrinn heillaði gestina á glansskónum.
Hjartsláttur okkar manns fór brátt úr 300 slögum á mínútu niður í hans hefðbundnu 80 og hann kaus að renna sér á rassinum niður til Ólafsfjarðar. Þar beið rútan heit og mjúk og ferjaði stuðningsaðilana yfir til Dalvíkur sem er fagur bær rétt hjá Akureyri! Snoturt hvalaskoðunarskip beið í höfninni og haldið var út á spegilsléttan sjóinn þar sem höfrungar, hnýsur, sætir silungar og léttir hvalir spókuðu sig í blíðviðrinu. Mönnum var boðið upp á léttar veitingar um borð og var mikið skrafað.
Kynning á Skíðalandsmótinu fór síðan fram í Tour Eiffel þeirra Dalvíkinga við sundlaugina. Okkar maður hélt stutta tölu án þess að vera með fullri meðvitund eftir æsilega ferð á snjósleða og höfrungadans á haffletinum. Hann var svo snortinn af norðlenskri fegurð og lipurð gráa kattarins að hann tjáði sig mest um golf, fjögurra blaða smára og synina sína þrjá.
Eftir gífurlega fjölbreyttan dag var haldið til út á flugvöll og ekið hratt framhjá Akureyri!! Viðar spurði hvort Fokkerinn myndi fljúga eða aka suður og fékkst til að fara upp í vélina þegar hann frétti að flugmanninum hefði verið skipt út.
Að framansögðu er ljóst að Tóbaksvarnanefnd er hæstánægð með samstarfið vegna Skíðalandsmótsins og var undirritaður ekki svikinn þegar hann kíkti til Dalvíkur þegar keppni stóð sem hæst. Sú áFJALLAhjálp sem okkar maður þurfti hinsvegar var sökum þess að hann vildi flytja norður og kaupa sér snjósleða og spýttbát. Við tímdum bara ekki að miss ann.
Samstarfið við Óskar og félaga var einstaklega ljúft og má segja að tóbakslausa mótið verði öðrum mótshöldurum til eftirbreytni í náinni framtíð. Heilbrigð skynsemi segir manni að þar sem íþróttir og iðkendur eru annars vegar eigi fíkniefni eins og tóbak ekki heima - en það þarf oft eldhuga og framkvæmdamenn til að opna augu annarra. Þrátt fyrir stórkostlegt mót er nokkuð ljóst að ,,hraðferðir" til Dalvíkur með áhættusömu ívafi gætu aukið ferðamannastrauminn norður verulega. Ekki síst ef grái kötturinn fær að vera með klærnar í málinu. Svo segir Viðar!!!
Til hamingju með framtakið Dalvíkingar.
Þorgrímur Þráinsson
framkvæmdastjóri
Tóbaksvarnanefndar