27.11.2002
Ég er afburða skíðamaður...
Og það er konan mín líka. Eldri strákurinn okkar er betri en við til samans. Algjör snillingur. Sá yngri byrjaði tveggja ára og ætlar að verða okkur hinum langtum fremri. Við förum um hverja páska til Dalvíkur að æfa okkur og sýna þessum Eyfirðingum sem eru alltaf svo roggnir og tala óskiljanlegt hrognamál, hvernig á að skíða. Það hefur ekki gengið vel. Allt frá því að ég kom fyrst til Dalvíkur 13 ára gamall að keppa á punktamóti hefur óheppnin elt mig á röndum. Við, þessir sunnanmenn, vorum með stálvöðva eftir vetrarlangar æfingar í frystum brekkum. Við komum norður í 15 metra djúpan jafnfallinn snjó, ófrystan. Maður hafði bara aldrei séð annað eins magn af snjó. Þegar var kveikt á ljósastaurunum um kvöldið sást bara örlítil ljóstýra hæst uppi í snjónum. Hvað um það. Ég datt í fyrri ferðinni í stórsviginu í braut sem minnti helst á bobbsleðabraut með sína 14 metra djúpu grafninga og sleit öll þau bönd sem halda þumalputta vinstri handar á sínum stað. Keppti daginn eftir í sviginu og var í fatla. Varð næstsíðastur. Jæja, ókei, ég varð síðastur!
Síðan hefur mig alltaf dreymt um að eiga kommbakk í Böggvisstaðafjalli og fór þessvegna að draga fjölskylduna norður í þeim tilgangi. Það hefur ekki gengið vel. Er skemmst frá því að segja að sonur minn (þá fimm ára) tapaði fyrir átta ára stúlku sem fæddist með skíðin á sér (erfið fæðing) í páskaeggjamóti (samhliðasvig) og neitaði að skila númerinu. Eðlilega. Þetta var svindl, stelpan var mikið eldri.
Svona hefur þetta verið og hafa fleiri leiðindaatvik átt sér stað eftir því sem við höfum komið oftar til Dalvíkur. Þó tók steininn úr um síðustu páska. Konan mín (frábær skíðakona) skellti sér í létta æfingbraut og það skipti engum togum að hún krækti og reif liðþófa hægra hnés í tætlur. Þá hafði einhver fært stöngina til eftir að frúin hafði skoðað brautina. Og ég er bara að átta mig á þessu núna í því að ég skrifa þetta. Maður verður bara alveg brjálaður inni í sér.
Þetta var þó ekki það versta. Mér var vinsamlegast boðið að vera með í svokölluðu þjálfaramóti eftir lokun eitt kvöldið. Hér var tækifærið komið. Nú skyldi ég sýna þessum montrössum hvað í mér byggi. Ha-ha, hugsaði ég með mér á nýju karving skíðunum. Jæja, í stuttu máli varð sú ferð ekki til fjár. Þetta var samhliðasvig og átti að stoppa í miðri braut og drekka smá pilsner og halda svo áfram. Pilsner!! Það var þá pilsnerinn!! Er skemmst frá því að segja að eftir fimm ferðir fann ég ekki lyftuna og ákvað því að skíða heim á leið. Björn Ingi Hilmarsson pikkaði mig upp kortéri síðar á bíl sínum og keyrði mig heim. Ég sofnaði snemma og vaknaði seint. Dreif ég þá fjölskylduna suður og hét því að koma aldrei til Dalvíkur aftur.
Síðan er liðið hálft ár. Konan er búin að panta gistingu á Dalvík um næstu páska og mér er runnin reiðin. Ef satt skal segja er ég búinn að gefa kommbakkið upp á bátinn. Konan talaði mig til. Þú getur ekki unnið Dalvík, sagði hún, þú getur bara ekki toppað Dalvík um páska. Það er aldrei röð í lyfturnar, páskeggjamót fyrir strákana, veðrið er alltaf gott, barnapössunin er sú besta í heimi og allir eru svo kammó og æðislegir. Og skjaldbökurnar í sundlauginni, bætti sonurinn við. Okkur líður bara eins og heima hjá okkur, sagði konan. Jújú, það er alveg rétt. Má ég þá bara biðja ykkur Dalvíkinga um eitt: veriði ekkert að draga of margt fólk til ykkar um páska með auglýsingum eða þvíumlíku. Við í minni fjölskyldu viljum bara hafa þetta eins og þetta er. Þetta er fullkomið.
Takk fyrir okkur
Ps
Ég er til í að keppa við hvern sem hvar sem og drekka hvað sem er á meðan. Ef þið þorið. Sjáumst um páskana.
Gunnar Helgason