31.03.2002
Mótstjórn Skíðalandsmótsins samþykkti í gær, laugardag, að hætta við keppni í risasvigi á mótinu, en þess í stað verði sett upp keppni í samhliðasvigi og fari hún fram á sama tíma og keppnin í risasviginu hafði verið áætluð, þ.e.a.s. nk. sunnudag.
Óskar Óskarsson, mótsstjóri, segir að þetta hafi verið niðurstaða stjórnarinnar í ljósi þess að snjór er af skornum skammti í Böggvisstaðafjalli. "Risasvigsbakkinn er sjálfur nógu breiður og stenst allar reglugerðir. Hins vegar sáum við fram á að við myndum hugsanlega eiga í erfiðleikum með að ná þeirri breidd öryggissvæða við brautina sem er áskilin og þess vegna var það samdóma niðurstaða mótsstjórnar að hætta við risasvigskeppnina en í stað hennar verði efnt til keppni í samhliðasvigi hér í Böggvisstaðafjalli," segir Óskar.
Það er ekki beint hægt að segja að veðurguðirnir hafi verið mótshöldurum á Dalvík og í Ólafsfirði hliðhollir að undanförnu. Mikinn snjó hefur tekið upp á skíðasvæðunum síðustu daga. Það kemur þó ekki í veg fyrir að mótssvæðin verði eins og þau eiga að vera um næstu helgi. Mótshaldarar segja einfaldlega að í þá vinnu verði lagt sem þurfi til þess að tryggja að allt verði eftir settum reglum þegar blásið verður til leiks nk. fimmtudag.