15.06.2003
Framfarafélag Dalvíkur er félagskapur sem lætur til sín taka á ýmsum sviðum. Eitt af því sem félagið hefur haft frumkvæði af er að gera tilraun til að þjappa saman þeim að aðilum sem í ferðaiðnaði standa í byggðarlaginu.
Síðastliðinn miðvikudag var flestum þeim sem hagsmuna hafa að gæta boðið að taka þátt í dagsferð um byggðarlagið og skoða það sem hér er í boði. Fulltrúar Dalvíkurbyggðar voru með í ferðinni sem hófst við Skíðaskálann Brekkusel kl. 11 um morgunin og endaði þar einnig þar sem allir borðuðu saman saltfisk.
Það er óhætt að segja að það hafi verið komin tími til að aðilar snúi bökum saman og sýni samstöðu í þessum málum. Allavega voru allir þeir sem tóku þátt sammála um að þarna hefði upphaf góðrar samvinnu verið hrundið af stað.
Frá Brekkuseli var haldið í Byggðarsafnið Hvol en það var Bóas Ævarsson sem sá um að aka fólkinu á rútu frá fyrirtæki sínu. Í Hvoli beið okkar Sóley Sigurðardóttir safnvörður og sagði hún frá safninu og skór Jóhanns Svarfdælings voru mátaðir. Árgerði var næsti viðkomustaður en þangað eru nýflutt hjónin Kolbrún og Ari. Þar hefur verið rekið mjög skemtilegt gistiheimili síðustu ár og hyggjast þau halda rekstrinum áfram í svipuðum dúr og jafnvel bæta einhverri afþreyingu við yfir sumarmánuðina. Þaðan var haldið inn á Árskógsströnd og komið við í Götu þar sem Ármann í Haga hefur rekið ferðaþjónustu í mörg ár. Svenni í Kálfskinni var næst heimsóttur niður í Ytri Vík en þar rekur Sveinn ferðaþjónustu ásamt fjölskyldu sinni. Hjá báðum þessum aðilum er hægt að fá gistingu allan ársins hring. Frá Ytri Vík var haldið út á Hauganes þar sem Árni Halldórsson beið í brúnni á Níelsi Jónssyni en á þeim bát gerir hann út á hvalaskoðunar- og útsýnisferðir ásamt fjölskyldu sinni. Árni sigldi með hópinn út á fjörðin þar sem mönnum gafst kostur á að renna fyrir fisk. Næst var farið í Svarfaðardal og sagði Friðrik Arnarson frá því sem fyrir augu bar. Keyrt var fram að austan og stoppað í Hánefsstaðarreit þar sem bakaríið Axið bauð upp á snittur. Næst var haldið fram í Skíðadal og komið við á Klængshóli en þar reka þau Anna Dóra Hermannsdóttir og Örn Arngrímsson ferðaþjónustuna Tröllaskaga ehf sem tekur á móti hópum, aðalega erlendum. Þessir hópar eru að sækjast eftir fjöllum til að klífa, en af slíkum fjöllum er nóg í Skíðadal. Á Klængshóli var boðið upp á skyr með Grísku hunangi og jurtaseiði sem Anna bjó til.
Á bakaleiðinni var síðan komið við á Möðruvöllum þar sem Óskar Gunnarsson frá Dæli á samkomusal.
Frá Möðruvöllum var keyrt yfir Tungurnar og haldið fram að Skeiði. Á Skeiði býr Merien en hún er þýsk stórhuga kona sem hefur komið upp ferðaþjónustu á bænum og býður upp á gistingu og aðra afþreyingu.
Síðan var haldið niður dalin að vestan og komið við á golfvellinum þar sem Jóhannes Stefánsson formaður tók á móti hópnum. Næsti viðkomustaður var Hringsholti en þar er landsins eða jafnvel heimsins stærsta hesthús sem var gaman að skoða. Það er rekin hestaþjónustan Tvistur sem Sveinbjörn Hjörleifsson og fjölskylda eiga.
Eins og áður sagði var endað í Brekkuseli og snæddur saltfiskur sem Ektafiskur og O Jakobsson buðu upp á. Það var meistarakokkurinn Gústi sem sá um eldamenskuna með aðstoð Höbbu og báru þau á borð tvo saltfiskrétti sem brögðuðust afar vel.
Í Brekkuseli tóku síðan nokkrir til máls og allir voru sammála um að dagurinn hefði verið mjög vel heppnaður og löngu tímabært að hagsmunaaðilar úr byggðarlaginu stilltu saman strengi sína.
Allir voru sammála um að nú skyldi látið til skara skríða og Dalvíkurbyggð komið enn betur á kortið en sem betur fer hefur verið unnið ágætt starf í þeim málum síðustu ár en þó má alltaf gera betur.
Í byggðarlaginu eru möguleikar á að bjóða upp á fyrsta flokks afþreyingu allan ársins hring og því ætti ferðaþjónusta að geta blómstrað allt árið.
Allir sem að þessari ferð komu gáfu vinnu sína og einnig var það sem í boði var fengið mjög ódýrt eða gefins og sýnir það samstarfsviljan um að þjappa ferðaþjónustuaðilum á svæðinu saman.