02.04.2002
Frá því var gengið núna um hádegið að Hlíðarfjall við Akureyri verði varastaður fyrir keppni í stórsvigi á Skíðamóti Íslands. Óskar Óskarsson, mótsstjóri, sagði menn hafa metið það svo að í ljósi hlýindaveðurspár næstu daga "gæti stórsvigið verið í hættu í Böggvisstaðafjalli", en það er á dagskrá mótsins nk. föstudag. "Við viljum tryggja að keppni á Skíðamóti Íslands fari fram við bestu mögulegu aðstæður og því töldum við rétt að leita eftir því við staðarhaldara í Hlíðarfjalli hvort möguleiki væri á því að flytja stórsvigið frá Dalvík í Hlíðarfjall með skömmum fyrirvara, ef við teldum ástæðu til þess. Í þessa málaleitan okkar var tekið mjög jákvætt, sem við erum þakklátir fyrir. Veðrið hefur sinn gang og við getum ekkert haft áhrif á það. Við verðum hins vegar að vinna eins vel úr aðstæðum á hverjum tíma og okkur er unnt og því urðum við að hafa vaðið fyrir neðan okkur með því að tryggja Hlíðarfjall sem varastað ef við teldum aðstæður hér í Böggvisstaðafjalli ekki nægilega góðar fyrir stórsvigið. Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir og það ber að undirstrika að við ætlum að halda svigkeppnina hér á Dalvík á laugardag, á hverju sem gengur," segir Óskar Óskarsson, mótsstjóri.