15.01.2002
Það leynir sér ekki að nú er skíðafólk á landinu farið að ókyrrast vegna snjóleysis. En nú er bara að trúa á spá völvu Bæjarpóstsins sem er gefin út í Dalvíkurbyggð en hún segir meðal annars. Ótti um snjóleysi um tíma er óþarfur með öllu, frekar að hann eða veðrið komi til með að trufla að einhverju leyti. Völvan talar einnig um góðan árangur hjá okkar fólki í vetur og við skulum vona að það rætist. Í fyrra talaði hún um góðan árangur Björgvins Björgvinssonar og Hörpu Rutar Heimisdóttir, þau urðu fjórfaldir íslandsmeistarar á Skíðamóti Íslands á Akureyri s.l. vor. Einnig segir í spánni að í íþróttalífi bæjarins standi skíðaíþróttin upp úr og að stórmót sem hér verði haldið verði öllum til sóma og árangur verði góður hjá okkar fólki. Sennilega er hún að tala um Skíðamót Íslands 2002 sem er tóbakslaust og er haldið á Dalvík og á Ólafsfirði í Apríl, einnig höldum við bikarmót hér 16.-17. febrúar.
Þó svo okkur sé farið að lengja eftir snjónum þá þarf ekki að fara mörg ár aftur í tímann til að sjá að skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli hefur nokkrum sinnum verið opnað um eða upp úr miðjum janúar en það gerðist síðast 1998 en þá var svæðið opnað 17. janúar en eftir það voru ágætis aðstæður til vors. Það er trú okkar hér á þessu svæði að upp úr miðjum mánuðinum verði komið skíðafæri hér og að eftir það verði nægur snjór til vors.