29.10.2005
Vangaveltur sem formaður Skíðafélags Dalvíkur,Óskar Óskarsson, ætlaði að koma inn á á formannafundinum í dag en þar sem hann var ekki á staðnum koma þær hér.
Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á uppsetningu snjókerfis á skíðasvæðinu á Dalvík. Í Hlíðarfjalli er einnig unnið að því að setja upp snjókerfi þannig að áður en langt um líður verða tvö skíðasvæði í Eyjafirði búin snjókerfum. Hverju breytir þetta? Hér á skíðasvæðinu á Dalvík verður varla hægt að setja stefnuna á að opna svæðið mikið fyrr en á síðustu árum því eins og allir vita getum við opnað svæðið mjög snemma og með lágmarks snjó vegna þess að landslagið er mjög gróið. Væntanlega væri búið að athuga með opnun núna ef við stæðum ekki í uppsetningu snjókerfisins þessa dagana og ef að kerfið hefði verið til staðar síðustu daga værum við búin að framleiða snjó og opna svæðið með fínar aðstæður. Skíðahreyfingin hefur fagnað
því að snjókerfi séu sett upp á þessum skíðasvæðum en eftir á að reyna á hversu mikið félögin eiga eftir að nota sér breyttar aðstæður. Vangaveltur um það hvenær eigi að hefja snjóframleiðslu á haustin hafa skotið upp kollinum og þá með tilliti til þess hvort að það borgi sig. Munu félögin nota sér aðstöðuna ef að til dæmis stefnan yrði sett á að opna svæðin í byrjun nóvember á hverju ári? Eða eigum við að nota kerfin til þess að tryggja snjó á skíðasvæðunum á hefðbundinni skíðavertíð það er janúar til apríl. Það er að sjálfsögðu megin markmiðið að hér sé snjór yfir há vertíðina en möguleikarnir með snjókerfunum eru nýjir fyrir okkur hér á Íslandi og spennandi verður að fylgjast með því hvernig þessari nýjung verður tekið.
Vetraríþróttamiðstöð Íslands er í Hlíðarfjalli og eins og nafnið gefur til kynna, miðstöð vertraíþrótta á Íslandi. Hvernig ætlar vetraríþróttamiðstöðin að gera þetta? Hefur Skíðasamband Íslands sett sig í samband við stjórn miðstöðvarinnar og kannað hvort ekki er öruggt að nýjir möguleikar opnast til dæmis fyrir fremstu skíðamenn okkar sem eru erlendis langtímum saman á haustmánuðum við æfingar þar sem aðstæður eru fyrir hendi. Samsetning landsliðs okkar ætti að geta vegið þungt en af okkar svæði eru í A landsliði tveir félagar úr Skíðafélagi Dalvíkur, Björgvin og Kristinn Ingi, Kristján Uni úr Skíðafélagi Ólafsfjarðar og Dagný Linda úr Skíðafélagi Akureyrar. Kostnaður þeirra við æfingar erlendis til samans skipta miljónum og því fróðlegt að fá sjónarmið Skíðasambandsins fram í þessum málum. Skíðafélag Dalvíkur er tilbúið að framleiða snjó snemma á haustin ef það gæti orðið til þess að spara landsliðsfólkinu okkar peninga og ferðalög. Því spyrjum við hvert er álit Skíðasambandsins í þessum málum, gæti til dæmis hluti kostnaðar liðsins farið í að borga hluta kostnaðar við snjóframleiðsluna?
Óskar Óskarsson
skario@simnet.is