03.04.2002
Erik Slettahaug, norskur eftirlitsmaður v/alpagreina, var á Dalvík í morgun og skoðaði aðstæður í Böggvisstaðafjalli. Slettahaug gaf grænt ljós á bæði stórsvigsbakkann og svigbakkann, en Bjarni Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skíðasambandsins, sem var í för með eftirlitsmanninum, segir menn þó gera sér grein fyrir því að hlýindin séu helsti óvinur mótshaldara og aðstæður séu fljótar að breytast. "Ef við værum að keyra stórsvig í dag væri stórsvigsbakkinn í góðu lagi, en við munum meta stöðuna á ný í fyrramálið og í kjölfarið verður væntanlega tekin endanleg ákvörðun um staðsetningu stórsvigsins. Mótshaldarar hafa unnið mjög vel hér í Böggvisstaðafjalli og munu halda því áfram og auðvitað vona menn að þetta geti gengið upp hér," segir Bjarni.
Framkvæmdastjóri Skíðasambandsins sagði að svigbrautin í Böggvisstaðafjalli væri í ágætu standi og mun auðveldara væri að gera hana klára en stórsvigsbrautina. Hins vegar sagði Bjarni alls ekki útiloka að unnt væri að frysta stórsvigsbakkann, en ótímabært væri að hafa uppi vangaveltur um það fyrr en á morgun. "Það er fyrst og fremst hár lofthiti sem er okkar helsti óvinur í þessu," sagði Bjarni
Í dag fer fram fyrsta mótið í Icelandair Cup mótaröðinni í Hlíðarfjalli og verður keppt í svigi. Á morgun verður síðan stórsvigskeppni í Hlíðarfjalli.