07.04.2004
Nú þegar keppnistímabilinu er að ljúka og að loknu glæsilegu Skíðamóti Íslands er ekki úr vegi að taka landsliðsþjálfara okkar tali - eftir hans fyrsta tímabil - og spyrja hann hvernig veturinn hafi verið og hvernig honum lítist á íslenskt skíðafólk.
Jamie: "Veturinn var langur en góður, frá Hintertux í október til Noregs í apríl og um alla Evrópu þar á milli. Að baki eru um 45 þúsund kílómetrar í keyrslu og svo margar flugferðir að ég man ekki lengur töluna. Við náðum 130 dögum á snjó sem verður að teljast nokkuð gott. Allir hafa bætt sig mikið í vetur og er ég mjög ánægður með árangurinn í mótunum hér heima. Þegar íslensku keppendurnir fá að starta á svipuðum stað og þeir erlendu þá eiga þeir góða möguleika. Mér fannst gaman að vinna með liðinu í vetur og skíðasambandinu og hlakka ég til næsta tímabils."
Hvað fannst þér um FIS- mótaröðina og Skíðamót Íslands?
Jamie: "Ég hef alltaf hlakkað til mótanna, en ég hef heyrt mikið og gott um þau. Mótin uppfylltu allar mínar væntingar. Þetta voru mjög góð mót og það var spennandi að fá svona góða keppendur frá Noregi til þess að etja kappi við þá íslensku á heimavelli. Það var gaman að sjá hvað allir voru að gera góða hluti og þó enn skemmtilegra að sjá hvað ungu keppendurnir stóðu sig vel. Það er greinilegt að hér eru margir ungir og efnilegir keppendur sem geta gert góða hluti í framtíðinni ef þeir eru tilbúnir til að leggja það á sig sem þarf. Það var jafnframt gaman að hitta íslensku þjálfarana sem vita mikið um íþróttina og eru þeir greinilega að vinna gott starf hér hjá félögunum og með þá krakka sem hér heima æfa."
Hvað tekur nú við hjá þér og landsliðsfólkinu okkar?
Jamie: "Ég er á leið til Evrópu að skoða æfingastaði fyrir næsta vetur og kannski fer ég aðeins á skíði með fjölskyldu minni. Þar á eftir fer ég síðan í nokkurra daga frí með fjölskyldunni heima í Danmörku. Í lok maí verðum við svo með fyrstu landsliðsæfinguna á Siglufirði, sem ég hlakka mikið til, en sú æfing verður þá upphafið á nýju tímabili hjá landsliðinu."